Lagarlíf: metþátttaka – 670 manns

Svandís Svavarsdóttir þáverandi matvælaráðherra flutti upphaflega frumvarpið um kvótasetningu á grásleppu. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Tæplega 700 manns eru skráðir á ráðstefnuna Lagarlíf, sem haldin er í sjötta sinn. Að sögn framkvæmdastjóra ráðstefnunnar hafa þátttakendur aldrei verið fleiri.

Ráðstefnan hófst í gærmorgun á Grand Hótel í Reykjavík. Í ávarpi matvælaráðherra, Svandísar Svavarsdóttur kom fram að mikill vöxtur hafi verið síðustu 10 ár í fiskeldi og fimmtánfaldaðist framleiðslan á tímabilinu. Hún sagði að greinin skipti miklu máli í þjóðhagslegu tilliti og gæti orðið að fjórðu stoðinni í efnahagslífi þjóðarinnar. Vísaði Svandís til skýrslu Boston Consulting Group, sem dregur fram möguleikana í náinni framtíð. Fiskeldinu fylgdi einnig áskoranir, sem þyrfti að taka á, svo sem vegna stroks og lúsar, sem gætu torveldað framgang eldisins og sagði ráðherrann aðeins greinin gæti leyst úr þeim.

Ráðherrann hyggst leggja fram á Alþingi tillögu að stefnumótun fyrir lagareldi fram til 2040 og hefur þegar kynnt í samráðsgátt stjórnvalda drög að þeirri stefnumótun.

Hæstu gjöldin á Íslandi af 12.000 tonna ársframleiðslu

Þröstur Sæmundsson, hagfræðingur Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi bar saman greiðslur laxeldisfyrirtækja til hins opinbera á Íslandi við fyrirtæki í Fæeryjum og á Noregi. Miðaði hann við gildandi lög um gjaldtöku í löndunum og áform hér á landi um hækkun fiskeldisgjaldsins. Í Noregi var fyrr á þessu ári lögfest 25% auðlindagjald.

Komst Þröstur að þeirri niðurstöðu að af 12.000 tonna ársframleiðslu og miðað við ákveðnar forsendur um verð á laxi, framleiðslukostnað og hagnað af rekstrinum að samanlögð gjöld væru hæst á Íslandi 97 kr/kg. Í Færeyjum yrði gjaldtakan 85 kr/kg og lægst eða 68 kr/kg í Noregi.

Væri forsendum breytt og miðað við meiri framleiðslu og hærra markaðsverð myndi gjaldtakan aukast í Noregi og Færeyjum umfram Ísland og miðað við stórframleiðanda 300.000 tonn á ári og 1.450 kr/kg markaðsverð og óbreyttan framleiðslukostnað yrði gjaldtakan hæst í Færeyjum 189 kr/kg, 171 kr/kg í Noregi og 147 kr/kg á Íslandi.

DEILA