Kvikmyndin Auður fékk verðlaun á kvikmyndahátíð í Las Vegas

Framleiðendur myndarinnar, Lýður Árnason og Íris Sveinsdóttir taka við verðlaunagripnum á hátíðinni.

Bíómyndin Auður (á ensku:The search of Audur) hlaut verðlaun sem besta spennumyndin á kvikmyndahátíð i Las Vegas á dögunum (best thriller/horror movie).  

Myndin er íslensk og framleidd af kvikmyndafyrirtækinu LYRIS FILMS.  Lýður Árnason skrifaði handritið og leikstýrði myndinni, Jóhannes Jónsson sá um kvikmyndatöku, Íris Sveinsdóttir  um klippingu, Hrólfur Vagnsson um hljóð og tónlist og Benedikt Ólafsson hafði umsjón með framkvæmd neðansjávarsena.  

Í aðalhlutverkum eru Sigríður Láretta Jónsdóttir sem var tilnefnd sem besta leikkona í aðalhlutverki á sömu hátíð,  Anna Hafþórsdóttir, Ingamaria Eyjólfsdóttir, Víkingur Kristjànsson, Hákon Jóhannesson, Ævar Örn Jóhannesson og Vagn Margeir Smelt.  

Myndin segir frá Auði sem er misnotuð í litlu sveitasamfélagi fyrir 50 árum en storkar síðan feðraveldinu þannig að til vandræða horfir.  Hún er send burt með skipi sem ferst og hún drukknar.   Margt er þó á huldu um örlög Auðar og þegar barnabarn hennar, Nanna, fær bréf frá gömlum sjómanni ákveður hún að fara til Íslands ásamt vinum sínum og komast að hinu sanna.  Myndin er tekin upp í Danmörku, Hafnarfirði, Bolungarvík og Hesteyri. Neðansjávarsenur eru teknar í sjó umhverfis Ísland.  

Myndin tekur þátt í kvikmyndahátíðinni Pigeon International film festival (PIFF) á Ísafirði og verður sýnd fimmtudaginn 12.október nk.

Á myndinni eru Benedikt Ólafsson, Hnífsdælingur og Jóhannes Jónsson, Ísfirðingur, að pæla í neðansjávartökum.

Vagn Margeir Smelt, Bolvíkingur og Ingamaría Eyjólfsdóttir í hlutverkum sínum.

DEILA