Ísafjarðarbær: útgjöld of há

Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefur gert athugasemd við rekstur Ísafjarðarbæjar. Í bréfi til sveitarfélagsins bendir nefndin á að eftir athugun á ársreikningi fyrir 2022 uppfylli sveitarfélagið ekki öll lágmarksviðmið eftirlitsnefndarinnar fyrir A hluta.

Sett hafa verið viðmið sem byggja á lágmarkskröfu til að standast jafnvægis- og skuldareglu sveitarfélaga. Skoðað er rekstrarniðurstaða, framlegð og veltufé frá rekstri fyrir sveitarfélagið samkvæmt ársreikningi 2022, ásamt lágmarksviðmiði EFS miðað við nettó skuldir í hlutfalli við tekjur.

Í ljós kemur að Ísafjarðarbær átti að skila afgangi eftir rekstrarkostnað miðað við skuldastöðu sína en reyndin varð neikvæð um 4% af tekjum. Þá átti framlegð að vera 10,3% af tekjum, þ.e. að þessi hluti tekna átti að vera eftir þegar rekstrarkostnaður hafði verið greiddur en niðurstaðan varð aðeins 6%.

Nefndin bendir þó á að heimilt er að víkja frá lágmarksviðmiðunum út árið 2025 og uppfylla þarf skilyrðin 2026.

Eftirlitsnefndin leggur áherslu á það við sveitarstjórn að nauðsynlegt sé að fara vel yfir fjárhagslegar forsendur sveitarfélagsins til að ná framangreindum lágmarksviðmiðum við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2024.

Úr bréfi eftirlitsnefndarinnar til Ísafjarðarbæjar.

DEILA