Ísafjarðarbær: styrkir tvær hátíðir

Frá sjósundinu. Mynd: Hlaupahátíðin á Vestfjörðum.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt styrktarsamning við Riddara Rósu sem standa fyrir hlaupahátíð á Vestfjörðum. Um er að ræða árlega fjárstyrk að fjárhæð 100.000 kr og svo styrkur vegna vinnu og lánsbúnaðar sem er að hámarki kr. 200.000 árlega eða samtals 300.000 kr.

Markmið samingsins er að styðja við uppbyggingu og framkvæmd Hlaupahátíðar Vestfjarða.

Hlaupahátíð Vestfjarða er árleg keppni og hátíð haldin á Þingeyri að sumarlagi. Keppt er í hlaupi, hjólreiðum og sundi, og fer fram á Þingeyri og í Dýrafirði/Arnarfirði, s.s. um Vesturgötu og Svalvoga.

Samningurinn verður borinn undir bæjarstjórn á fundi seinna í dag.

Barnamenningarhátíð styrkt

Þá hefur bæjarráð samþykkt 170.000 kr. styrk til Vestfjarðastofu vegna barnamenningarhátíðar Púkans. Fjárhæðin rennur til þess að dekka húsnæðis- og tækjaleigu ásamt þóknun tæknimanns í Edinborgarhúsinu fyrir lokahátíð Púkans sem var föstudaginn 22. september.

Púkinn var haldinn dagana 11.-22. september 2023, um alla Vestfirði, og var markmiðið að stuðaa að valdeflingu barna á Vestfjörðum. Á hátíðinni voru 63 viðburðir og eru flestum þeirra ætlað að auka sköpunarkraft vestfirskra barna. Hátíðin er styrkt af Barnamenningarsjóði og Vestfjarðastofu.

Bæjarráðið fól bæjarstjóra að ræða við Vestfjarðastofu um undirbúning menningarverkefna af þessari stærðargráðu í framtíðinni.

DEILA