Ísafjarðarbær: 35 m.kr. framkvæmdum flýtt

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt viðauka við fjárhagsáætlun ársins og flýtt framkvæmdum fyrir 35 m.kr. við lagningu gervigrass á tvö velli á Torfnesi og innanhússlýsingu í íþróttahúsinu. Er það vegna þess að knattspyrnulið Vestra í karlaflokki vann sér sæti í Bestu deildinni að ári og hefst því næsta keppnistímabili fyrr en áætlað var. Verður því að flýta framkvæmdum við að koma nýju gervigrasi á vellina tvö á Torfnesi, keppnisvöllinn og æfingavöllinn.

Framkvæmdum var á móti frestað fyrir sömu fjárhæð svo útgjaldaauki bæjarsjóðs á árinu verður enginn vegna breytinganna. Framkvæmdafjárhæð við vatnsveitu er lækkuð um 25,5 m.kr. og fráveitu um 9,5 m.kr.

Frestað verður að setja upp fráveitugám á Suðureyri og frestað verður frágangi hreystitækja. Að öðru leyti er óljóst hvaða framkvæmdum er frestað og hver frestunarfjárhæðin í hverju tilviki er þar sem upplýsingar eru skyggðar í viðaukanum. Styrkur frá Fiskeldissjóði virðist verða hærri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir.

Fram kom í umræðunni að gervigras á æfingavöllinn fer í skip 14. október.

DEILA