Heilbrigðisstofnun Vestfjarða – nýtt skipulag á Patreksfirði

Hrafnhildur Ólöf Ólafsdóttir. Mynd: Hvest.is

Frestur til að sækja um starf forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða er runninn út. Beðið er svara Heilbrigðisráðuneytisins við því hverjir sóttu um. Gylfi Ólafsson, fráfarandi forstjóri er kominn í námsleyfi og gegnir Elísabet Pétursdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar starfinu þar til nýr forstjóri hefur verið ráðinn.

Í síðasta mánuði var tilkynnt um nýjan hjúkrunarstjóra á Patreksfirði, Hrafnhildi Ólöf Ólafsdóttur, sem áður starfaði sem deildarstjóri málaflokks heimilislausra í Reykjavík. Þá var Magnús Már Sveinbjörnsson ráðinn sem rekstrarstjóri, en hann hefur stjórnunarreynslu af barna- og unglingamálum í Reykjavík.

Samhliða þessum ráðningum var uppfært skipurit fyrir starfsemina á Patreksfirði.

Auglýst hefur verið staða deildarstjóra hjúkrunar- og sjúkradeildar á Patreksfirði. Uppbygging á heimahjúkrun á svæðinu verður á ábyrgð deildarstjóra. Unnið er að undirbúningi viðbyggingar við húsið þar sem ný hjúkrunardeild verður byggð. Er það verkefni á leið í hönnunarsamkeppni á næstu mánuðum.

DEILA