Háafell: engin laxalús í Djúpinu

Háafell er eina fyrirtækið sem fengið hefur leyfi til eldis á frjóum laxi í Ísafjarðardjúpi. Eldiskvíar Háafells utan Skötufjarðar. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Gauti Geirsson, framkvæmdastjóri Háafells ehf staðfestir í samtali við Bæjarins besta að engin laxalús hafi fundist í laxeldi fyrirtækisins í Vigurál utan Skötufjarðar. Settur var lax í kvíar fyrirtækisins í fyrra. Gauti segir að aðeins hafi orðið vart við fiskilús en hún hafi horfið í vetur. Sömu sögu sé að segja af nýja kvíastæði Háafells í Kofradýpi, þar sé ekki nein laxalús. Fiskilús er ekki nærri eins skaðleg laxinum og laxalúsin.

Gauti segir verið sé að athuga hvort grípa eigi til aðgerða gegn fiskilúsinni.

Auk laxeldis Háafells er Hábrún með regnbogasilungseldi í Ísafjarðardjúpi. Sjá má á mælaborði Mast stöðuna í Ísafjarðardjúpi gagnvart laxalúsinni og eins og sjá má þar er varla að laaxalús mælist. Í síðustu mælingu, sem var í ágúst, voru 0,02 kvenlús á hverjum laxi og engin lús lengst af í vetur.

DEILA