Guðmundur Fertram: Vestfirska efnahagsævintýrið byggir á nýtingu auðlinda til verðmætasköpunar

Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri Kerrecis í ræðustól á Fjórðungsþingi Vestfirðinga í Bolungavík.

Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri Kerecis á Ísafirði flutti áðan erindi á Fjórðungsþingi Vestfirðinga sem nú stendur yfir í Félagsheimilinu í Bolungavík. Fjallaði hann þar um vestfirska efnahagsævintýrið sem hefur á síðustu árum breytt íbúaþróun á Vestfjörðum og leitt til fjölgunar. Sagði hann það vera byggt á nýtingu auðlinda hafsins. Annars vegar er það Kerecis sem var fyrr á þessu ári selt fyrir um 180 milljarða króna og framleiðir vörur sem nýtir roð af þorski og nýtast til þess að græða sár. Hins vegar er það uppbygging fiskeldisins í sjókvíum sem eru í fjörðum Vestfjarða.

Vestfirska efnahagsævintýrið væri byggt á því að skapa verðmæti úr auðlindum sem væru á Vestfjörðum. Til dæmis þá stefndi í að framleiðsluvörur Kerecis ykju verðmæti þorskafurða um 25% með nýtingu roðsins, sem þó væri aðeins roð af þorskafla eins togara á Ísafirði og að ekki einn þorksur til viðbótar væri veiddur úr sjó.

Lagði Guðmundur áherslu á að það væri þjóðhagslega hagkvæmt að nýta þessar auðlindir á Vestfjörðum. Þjóðin hefði hag af því , ekki bara Vestfirðingar einir og atvinnustarfsemin skilaði miklum tekjum. Það væri því líka þjóðhagslega hagkvæmt að byggja upp innviði á Vestfjörðum sem stuðluðu að nýtingu auðlinda fjórðungsins og það væri nauðsynlegt að gera Vestfirði a.m.k. jafnsetta öðrum landshlutum í innviðum.

Slík uppbygging kostaði mikla fjármuni en hún myndi skila þeim til baka með aukinni framleiðslu og verðmætasköpum. Guðmundur Fertram lagði sérstaka áherslu á að það væri atvinnuuppbyggingin sem skilaði Vestfjörðum áleiðis en ekki stofnun þjóðgarða og rómantískar hugmyndir um útivist.

Samgöngusáttmáli Vestfjarða

Guðmundur Fertram Sigurjónsson varpaði fram þeirri hugmynd að gera samgöngusáttmála fyrir Vestfirði um uppbyggingu innviða næstu 25 árin sem myndi skila fjórðungnumjafnsettum örðum landshlutum í lok tímabilsins.

Bauð hann sveitarstjórnarmönnum og fulltrúum ríkisins til samtals um þennan sáttmála með forsvarsmönnum fyrirtækja. Fjármagn yrði sótt til fjárfesta og endurgreitt á lengri tíma en næstu 25 árum.

DEILA