Gefum íslensku séns og Fræðslumiðstöð Vestfjarða í Árneshreppi

Næstkomandi laugardag verður kynning í Árneshreppi á Ströndum. Kynningin á sér stað í samkomuhúsinu við Trékyllisvík. Klukkan 13:00. Þar verður átakið GEFUM ÍSLENSKU SÉNS – ÍSLENSKUVÆNT SAMFÉLAG kynnt auk þess sem Háskólasetur Vestfjarða og hagnýt íslenska við Háskóla Íslands verða einnig kynnt. En Háskólasetur Vestfjarða er einmitt samstarfsaðili Háskóla Íslands þegar kemur að hagnýtri íslensku, íslensku sem annað mál. Samstarfið hófst í haust.

Auk þess verður þar Fræðslumiðstöð Vestfjarða með kynningu á starfsemi sinni auk þess sem netkennsla verður sérstaklega rædd og þá aðallega í tengslum við íslenskukennslu. Þess má auk þess geta að Fræðslumiðstöð Vestfjarða er einmitt aðili að Gefum íslensku séns ásamt Háskólasetri Vestfjarða, Súðavíkurhreppi og fleiri aðilum.

Það er ekkert launungarmál að átakið Gefum íslensku séns hefur það að markmiði að skjóta rótum sem víðast og hafa verið haldnar nokkrar kynningar á átakinu á þessu ári. Verða næsta víst fleiri kynningar í framtíðinni.

Eins og Fræðslumiðstöð Vestfjarða viljum við auka vitund fólks fyrir máltileinkun íslensku sem annars máls og auka möguleika fólks á að nota málið og að æfa sig í notkun þess.

Er það og von þeirra sem standa að átakinu að fleiri aðilar víðsvegar um landið sjái sér leik á borði og api eða taki það upp sem átakið hefur staðið að. Öllu sem Gefum íslensku stendur að má endilega „stela“.

Vonandi sjá sér sem flestir fært að mæta.

Með íslenskuvænum kveðjum.

-Hafa má samband í gegnum islenska(hja)uw.is sé áhugi fyrir hendi

DEILA