Freyja og Gná fylgdu Stellu til hafnar á Flateyri

Björgunarbáturinn Stella

Landhelgisgæsla Íslands óskar björgunarsveitinni Sæbjörgu innilega til hamingju með björgunarbátinn Stellu sem vígður var við hátíðlega athöfn á höfninni á Flateyri um helgina að því er kemur fram í frétt frá Landhelgisgæslunni.

Báturinn er nýsmíði frá Rafnari og er annar tveggja báta af þessari tegund sem smíðaðir voru fyrir Slysavarnafélagið Landsbjörg. Hinn báturinn fór til Húsavíkur.

Varðskipið Freyja og þyrlusveit Landhelgisgæslunnar tóku þátt í hátíðahöldum vegna komu bátsins á Flateyri um helgina og fylgdu nýja bátnum til hafnar.

Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, sagði komu bátsins marka stórt skref í átt að auknu öryggi á svæðinu og væri mikið framfararskref.

Landhelgisgæslan tók þátt í hönnun bátsins fyrir rúmum áratug og hefur haft varðbátinn Óðinn í flota sínum frá árinu 2015 sem hefur reynst einstaklega vel.

DEILA