Fljótavík: leyfi veitt fyrir að lagfæra slóða

Fljótavík. Mynd: fljotavik.is

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar hefur fyrir sitt leyti heimilað framkvæmdir við vegslóða og brúarsmíði í Fljótavík. Umhverfisstofnun hefur einnig samþykkt framkvæmdirnar en með 12 skilyrðum og verður leyfið afturkallað er þeim er ekki fylgt. Meðal skilyrðanna er að hafa „skal þetta bréf með í för á meðan verkefninu stendur og kynna fyrir starfsfólki þau skilyrði sem fylgja leyfinu, áður en undirbúningur og vinna hefst.“

Það eru Atlastaðir sumarhúsafélag sem stendur fyrir framkvæmdunum. Ætlunin er að lagfæra 1,4 km langan slóða sem liggur frá lendingaraðstöðu fyrir báta við slysavarnarskýlið að Atlastöðum í Fljótavík. Jafnframt er óskað eftir leyfi til að byggja brú yfir Krossalæk. Brúin verður um 1,5 m á breidd, smíðuð úr stálbitum og timburdekki.

Þá verður stoðveggur í fjöruborðinu við slysavarnarskýlið hækkaður um 40 cm. Árið 2018 var veggurinn gerður og vildi Umhverfisstofnun þá ekki fallast á umbeðna hæð á veggnum og var hann lækkaður. Umhverfisstofnun fellst nú á hækkunina enda „komið í ljós að sjór og grjót gengur yfir vegginn sem veldur því að þar sem bátalagið á að vera er oft á tíðum fullt af grjóti“ eins og segir í afgreiðslu Umhverfisstofnunar.

Umhverfisstofnun metur lagfæringu slóða með plastgrindum og byggingu göngubrúar yfir Krossalæk ekki líklega til að hafa neikvæð áhrif á náttúru og verndargildi svæðisins. Stofnuninn metur verkefnið til þess fallið að draga úr gróðurskemmdum og stýra umferð. Til lengri tíma mun framkvæmdin auka verndargildi svæðisins.

Um hækkun stoðveggjarins segir Umhverfisstofnun:

„Umhverfisstofnun telur að þrátt fyrir að veggurinn við lendinguna sé óneitanlega lýti á ósnortinni strönd Fljótavíkur, þá hefur hann sannað gildi sitt. Enda illa lendandi á svæðinu í norðlægum áttum. Það hefur sýnt sig að veggurinn er of lár, enda fyllist lendingin ár hvert af grjóti. Horfa verður hér til öryggis gesta
svæðisins og veita leyfi fyrir hækkun veggjarins af öryggisástæðum, þrátt fyrir að það sé ekki til þess fallið að auka verndargildi.“

Framkvæmdin mun taka 3 ár og gildir leyfið frá 1. júní 2024 til 31. september 2026.

DEILA