Fjórðungsþing: vill jafna kostnað við flokkun og förgun úrgangs

Frá fjórðungsþinginu í Bolungavík í haust. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Fjórðungsþing Vestfirðinga tók til umfjöllunar kostnað við flokkun og förgun úrgangs í sveitarfélögum sem eru langt frá urðunarstöðum. Fulltrúar Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps vöktu athygli á málinu.

Gjöld á íbúa í Vesturbyggð árið 2023 vegna meðhöndlunar úrgangs er með því hæsta sem gerist á landinu að því er fram kom í máli sveitarfélaganna og langtum hærri en það sem þekkist á höfuðborgarsvæðinu, en dugir þó ekki til fyrir rekstri þjónustunnar.

Með breytingum á lögum vegna meðhöndlunar úrgangs er sveitarfélögum skylt að innheimta gjald sem næst raunkostnaði við þjónustu um meðhöndlun úrgangs. Við gildistöku þessa ákvæðis kom skýrt fram að sveitarfélög sem eru bæði dreifbýl og langt frá móttökustöð standa höllum fæti þegar kemur að kostnaði af meðhöndlun úrgangs og aðstöðumunur sveitarfélaga sláandi.

Fjórðungsþingið tók undir þessi sjónarmið og beinir því til stjórnvalda að jafna flutningskostnað úrgangs, sem fellur til í sveitarfélögum langt frá urðunar-, móttöku- og förgunarstöðum, við þau sem eru í nálægð við slíka staði.

DEILA