Fjórðungsþing: vill endurmeta ofanflóðahættu og viðbragðsáætlanir

Varnargarður á Patreksfirði nokkru utar við Stekkagil. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Fjórðungsþing Vestfirðinga, sem haldið var í Bolungavík fyrr í mánuðinum ræddi um ofanflóðahættu og gerði tvær ályktanir.

Í fyrri ályktuninni skoraði þingið á umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og fjármálaráðherra að leita allra leiða til þess að flýta vinnu við að endurmeta hættu á ofanflóðum þar sem þegar hafa verið byggðar ofanflóðavarnir. Fjórðungsþing minnti á upphaflegt hlutverk Ofanflóðasjóðs um verndun byggða fyrir
ofanflóðum og flokkun og nýtingu hættusvæða.

Vísað er til skýrslu starfshóps ráðuneytisins, sem út kom fyrr á árinu, þar sem stendur að nauðsynlegt sé að endurskoða hættumat þar sem reist hafa verið varnarvirki. Endurskoða þurfi fjárþörf reglulega, að lágmarki á þriggja ára fresti.

„Verði ekkert að gert munu íbúar sem búa undir þegar byggðum snjóflóðavörnum mögulega búa við falskt öryggi og húseignir þeirra metnar á lægra verði vegna snjóflóðahættu sem mögulega sé ekki lengur til staðar. Falskt búsetuöryggi íbúa er óásættanlegt með tilliti til vellíðunar fólks og því er mikilvægt að endurmat áhættu fari fram sem allra fyrst eftir byggingu snjóflóðavarna“.“ segir í ályktuninni.

Í seinni ályktuninni beinir fjórðungsþingið því til Almannavarnardeildar Ríkislögreglustjóra og dómsmálaráðherra að hefja gerð viðbragðsáætlana vegna ofanflóða í öllum þéttbýlum á Vestfjörðum þar sem slíkt vantar.

Komið hafi ljós að viðbragðsáætlanir vegna ofanflóða séu almennt ekki til staðar. Nauðsynlegt er að hafa slíkar viðbragðsáætlanir tiltækar svo að viðbragðsaðilar geti æft sig eftir þeim reglulega. Þannig verða viðbrögð fumlaus og örugg.

DEILA