Fjórðungsþing: skoðaðar verði nýjar fjármögnunarleiðir í samgöngumálum

Frá fjórðungsþinginu í Bolungavík í haust. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Fjórðungsþing Vestfirðinga, sem haldið var í Bolungavík fyrir helgina bendir í sérstakri samþykkt á að markmið stjórnvalda í samgöngumálum eru jákvæð en verulega vanfjármögnuð. Þingið beinir því til yfirvalda samgöngumála að skoðaðar verði nýjar fjármögnunarleiðir til að jafna samkeppnisstöðu Vestfjarða í samgöngumálum.

Tekur Fjórðungsþingið með þessu undir hugmyndir Guðmundar Fertram Sigurjónssonar, forstjóra Kerecis um sérstakan samgöngusáttmála fyrir Vestfriði. Guðmundur varpaði fram þeirri hugmynd á Fjórðungsþinginu að gert yrði átak um uppbyggingu innviða næstu 25 árin á Vestfjörðum sem myndi skila fjórðungnum jafnsettum öðrum landshlutum í lok tímabilsins.


Fjórðungsþing beindi því til stjórnvalda að auka þegar á árinu 2023 fjármagn til vetrarþjónustu og viðhalds vega á Vestfjörðum til að bæta ásýnd Vestfjarða til búsetu, fjárfestinga og heimsókna.

Þá náðist samkomulag um það á þinginu að það er hlynnt gjaldtöku nýrra samgönguframkvæmda verði það til þess að hægt verði að flýta framkvæmdum á Vestfjörðum.

Fyrir þinginu lá tillaga um stuðning við gjaldtöku í jarðgöngum til að standa undir kostnaði við ný jarðgöng. Sú tilllaga hlaut ekki afgreiðslu.

DEILA