Drangsnes: 30 l/sek af heitu vatni

Óskar Torfason hitaveitustjóri ásamt bormönnum.

Hitaveita Drangsness lét á dögunum bora aðra holu í þorpinu í leit að frekara heitu vatni. Holan er skammt frá þeirri sem fyrir er við Grunnskólann. Borað var niður á 360 metra dýpi og tókst vel til. Upp komu 30 sekúndulítrar af 60 gráðu heitu vatni.

Holan sem fyrir er gefur 7 sekúndulítra af sjálfrennandi vatni 62,5 gráðu heitu. Óskar Torfason, hitaveitustjóri sagði í samtali við Bæjarins besta að holurnar væru að einhverju leyti í sama vatnskerfinu og nú yrði séð til hvernig rennslið þróaðist á næstu vikum. En ljóst væri að hægt yrði að dæla 16 sek/l úr nýju holunni sem er mun meira en hitaveitan þarf.

Ástæða borunarinnar nú hefði verið að vatn hafi ekki verið nægilegt þegar kólnaði í veðri og undanfarna vetur hafi þurfi að loka sundlauginni um tíma. Nú væri hins vegar hægt, sagði Óskar, að hafa sundlaugina opna í vetur. Þá væri hitaveitan nú aflögufær með heitt vatn og hægt að huga að því hvernig það verði sem best nýtt byggðarlaginu til hagsbóta.

Myndir: Óskar Torfason.

DEILA