Dr. Blood Group spilar á Flateyri

Laugardaginn 18. nóvember 2023 kl 22-24 stígur Dr. Blood Group á sviðið í Vagninum og leikur rokktónlist til minningar um tvo látna vini á Ísafirði, Guðmund Thoroddsen (1952-1996) listmálara og Jón Sigurpálsson (1954-2023), myndlistarmann og fyrrverandi safnastjóra Byggðasafns Vestfjarða. Báðir léku í hljómsveitinni „Diabolus in Musica“ („Tónskrattanum“) á árum áður með Dr. Blood og fleirum. Fyrsta plata Tónskrattans (Hanastél) er á Spotify og nokkur lög þeirrar sveitar lifa enn.

Dr. Blood Group er kennd við Pál Torfa Önundarson, lækni/blóðmeinafræðing og gítarleikara, sem ættaður er frá Flateyri, Sólbakka og Hrauni á Ingjaldssandi. Langafi hans byggði Vagninn. Hann er uppnefndur „Dr. Blood“ í tónlistinni og hefur samið þekkt lög eins og t.d. Pétur Jónatansson og Ferrari. Í sveitinni eru auk hans í stafrófsröð:
Ársæll Másson, „Sæli“, stærðfræðingur, gítarleikari
Einar Sigurmundsson, unglingurinn í bandinu er íslensku-/bókmenntafræðingur, trommur
Jón Baldur Þorbjörnsson, „Djei bí“, bílatæknifræðingur og ferðaþjónustubóndi, söngur og bassaleikur til skiptis.
Kjartan Jóhannesson, „Kjói“, fyrrverandi hraðbankastjóri Íslands, söngvari, gítar og slagverk
Kristján Sigurmundsson, „Stjáni saxófónn“, þroskaþjálfi, söngur, slagverk og skraut
Ólafur Óskar Axelsson, „Óli Axels“; arkitekt og tónskáld, hljómborð
Þórólfur Guðnason, „Tóti“; barnalæknir/smitsjúkdómalæknir, söngur og bassaleikur

Tvær frægar gestasöngkonur munu taka sitthvort lagið með þeim.

Meðlimir sveitarinnar hafa fengist við tónlist með ýmsum hætti frá barns- og unglingsárum en völdu sér aðrar leiðir til ævistarfs. En þeir hafa engu gleymt og hafa vikulega horfið inn í bílskúra og grátið það að hafa ekki lagt tónlistina fyrir sig sem aðalstarf.
Flestir meðlima DBG voru einnig í Blúsbandi Jóns Baldurs (sjá „Fiskur og slor á Spotify“), sumir í Diabolus in Musica og tengdum sveitum (sjá „Hanastél á Spotify“), Töktum í Vestmannaeyjum, Pétri og úlfunum (sjá „Stjáni saxófónn“ á Spotify) , Six-pack Latino, Saltfisksveit Villa Valla í Tjöruhúsinu á Ísafirði, og svo mætti lengi telja.
Hljómsveitin mun í Vagninum aðallega leika fjölraddaða rokktónlist frá 1955-1975 og eitthvað frumsamið. Mottóið er „Þeir hafa engu gleymt og ekkert lært“, sem er reyndar ósatt.

DEILA