Alþingi: fiskeldi er komið til að vera

Berþór Ólason (M) í ræðustól Alþingis.

Sérstök umræða fór fram á þriðjudaginn á Alþingi um slysasleppingu eldislaxa úr sjókvíaeldi. Fimm þingmenn kjördæmisins af átta tóku þátt í umræðunni.

Bergþór Ólason (M) sagði að fiskeldi væri komið til að vera og lagði áherslu á að bregðast við slysasleppningunni í ágúst með því að bæta framkvæmd eldisins. Fiskeldi væri ung grein og gríðarlega mikilvæg. Benti hann á að fram til þess hefðu aðeins 8 eldislaxar úr innlendu eldi veiðst í nytjaám hér á land sem væri góð frammistaða af hálfu eldisfyrirtækjanna. Bergþór sagði að treysta ætti vísindunum og fylgja leiðsögn þeirra, það væri áhættumatið um erfðablöndun sem vísaði veginn fyrir atvinnugreinina og bíða þyrfti þess að Hafrannsóknarstofnun skilaði sínum tillögum um það fyrir næstu ár. Von væri á þeim um næstu áramót.

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (B) var málshefjandi og sagði það alvarlegt mál að margir sleppilaxanna hafi verið orðnir kynþroska. Fyrirtækin hefðu leiðir til þess að koma í veg fyrir slíkt með ljósastýringu. Nefndi hún sem Bergþór að fram að slysasleppingunni í ágúst hefðu frá 2016 aðeins 8 eldislaxar veiðst í skráðum veiðiám og lagði áherslu á að sá atburður hefði verið undantekning.

Um fiskeldið sagði Lilja að mikill vöxtur hefði verið í greininni og það hefði mikil áhrif á Vestfjörðum með fjölda starfa en einnig væru áhyggjur veiðiréttarhafa um erfðablöndun milli villta laxins og eldislaxins. Mikið væri því í húfi. Nefndi hún tillögur Ríkisendurskoðunar um meira eftirlit og mótvægisaðgerðir vegna slysasleppinga til ahugunar nú. Tryggja þyrfti eftirlit og ábyrgð fyrirtækjanna. Ein leiðin væri að eldislaxarnir komist ekki upp í árnar.

Teitur Björn Einarsson (D) Sagði að kjarni málsins væri spurningin hvort villtum laxastofnum stafaði hætta af strokulöxum í eldiskvíum. Svaraði hann spurningunni þannig að hættan væri hverfandi. Hin vísindalega niðurstaða væri að það þyrfti síendurteknar sleppingar í miklu magni yfir langan tíma til þess að auka hættu á áhrifum á villta stofna. Ástæðan væri sú að eldislaxinn hafi mun minni hæfni til að fjölga sér en villtur lax.

Niðurstaða Teits Björns var að áhættan væri til staðar en væri hverfandi. Engu að síður væri í gildandi löggjöf ákvæði sem eru til að draga enn frekar úr áhættunni. Nefndi hann ákvæði um aukna fjarlægð eldiskvía frá ám, áhættumat erfðablöndunar, kröfur um búnað, tækni og framleiðslferli og loks vöktun og mótvægisaðhgerðir.

Halla Signý Kristjánsdóttir (B) vildi að eftirlitið yrði fært nær eldisfyrirtækjunum eins og sveitarfélögin á Vestfjörðum hafa kallað eftir. Sagði hún þau nauðsynlegt til þess að stytta viðbragðstíma og byggja upp þekkingu á svæðinu. Það væri heldur ekki fyrirtækjunum í hag væri eftirlitið slakt. Halla vísaði svo til tillögu matvælaráðherra um stefnu í málaflokknum sem hefur verið kynnt og er í samráðsgátt stjórnvalda. Lagði hún áherslu á að hafa þurfi vísindin í forgrunni.

Bjarni Jónsson (V) sagði í upphafi máls síns að ekki lægi en fyrir umfang skaðans sem af slysasleppingunni leiddi og kallaði atburðinn umhverfisslys. Varpaði hann því fram hvort hvort eldi gæti farið fram hér við landi og hvort trappa þyrfti niður sjókvíaeldið. Lagði Bjarni áherslu á aukið eftirlit og harðari viðurlögum og vildi að fyrirtækin keypti sér tryggingar sem borgðu skaða annarra en þeirra sjálfra af starfseminni.

Að þeim þingmönnum öðrum sem til máls tóku töluðu aðeins þingmenn pírata, Björn Leví Gunnarsson og Halldóra Mogensen fyrir banni á sjókvíaeldi.

DEILA