Alþingi: biðja um skýrslu um útflutningstekjur, skatta og útgjöld sundurliðað eftir landshlutum

Efnahags- og fjármálaráðherra fær það verkefni að vinna skýrslu um útflutningstekjur, skatta og útgjöld og sundurliða eftir landshlutum.

Tólf alþingismenn frá fimm flokkum hafa lagt fram á Alþingi beiðini um skýrslu frá efnahags- og fjármálaráðherra, Þórdísi K. Gylfadóttur, um skiptingu tekna, skatta og gjalda ríkisins eftir landshlutum síðustu tíu ár. Óskað er eftir heildstæðu yfirliti þar sem fram komi nákvæm útlistun á skiptingu útflutningstekna landsins, skatta ríkisins og gjalda þess eftir landshlutum og útgjalda ríkisins til sömu svæða á móti.

 Í greinargerð til skýringar á beiðninni segir að skipting útflutningstekna landsins, innheimtu skatta og annarra gjalda sem renna í ríkissjóð annars vegar og útgjalda ríkissjóðs hins vegar eftir landshlutum hafi löngum verið áberandi umræðuefni.

Af því tilefni óska flutningsmenn beiðninnar eftir heildstæðu yfirliti í skýrsluformi frá fjármála- og efnahagsráðherra sem sýni skiptingu útflutningstekna landsins á íbúa eftir landshlutum (Höfuðborgarsvæðið, Vesturland, Vestfirðir, Norðurland vestra, Norðurland eystra, Austurland, Suðurland og Suðurnes) en einnig hvaðan tekjur ríkisins koma, frá hvaða tekjustofnum ríkisins, flokkað eftir atvinnuvegum og landsvæðum.

Þá felur beiðnin í sér ósk um yfirlit yfir útgjöld ríkisins eftir málaflokkum milli landsvæða síðustu tíu ár. Flutningsmenn leggja áherslu á að varpað verði ljósi á hvort og þá með hvaða hætti mismunur sé á tekjum og útgjöldum ríkisins eftir landsvæðum.

Þá er einnig óskað eftir því að skýrslan innihaldi eignir ríkisins eftir sömu flokkun, skráð matsverð þeirra, tekjur og kostnað vegna þeirra.

Markmiðið með skýrslu þessari er að greina umsvif ríkisins í hverjum landshluta fyrir sig, svo hægt sé að skoða hvaða tekjur ríkið hefur af hverjum landshluta fyrir sig og hver útgjöld ríkisins eru á sama svæði. Flutningsmenn óska eftir að sýnt verði fram á hlut hvers landshluta af vergri landsframleiðslu.

Meðal flutningsmanna eru tveir þingmenn kjördæmisins Halla Signý Kristjánsdóttir (B) og Stefán Vagn Stefánsson (B). Fyrsti flutningsmaður er Ingibjörg Isaksen (B) fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis. Þingmenn meðal flutningsmanna eru einnig frá Sjálfstæðisflokki, Vinstri grænum, Flokki fólksins og Samfylkingu.

DEILA