Vesturbyggð: Hagnaður af rekstri Vestur-Botns ehf

Frá Patreksfirði. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Ársreikningur 2022 fyrir Vestur-Botn ehf á Patreksfirði hefur verið birtur. Hagnaður varða af rekstrinum 2,3 m.kr. Tekjur voru vaxtatekjur og kostnaður af rekstri óverulegur. Félagið greiddi 700 þús kr í fjármagnstekjuskatt. Eignir voru um síðustu áramót 42,7 m.kr. og eigið fé 42,5 m.kr.

Félagið er í eigu Vesturbyggðar og starfar það í þágu almenningsheilla og er öllum hagnaði ráðstafað í þágu Dvalarheimilis aldraðra á Patreksfirði. Tilgangur félagsins er að starfa sem byggingarfélag um byggingu dvalarheimila aldraðra, íbúða fyrir aldraða og þjónustumiðstöðvar þeim tengdum á Patrekfirði. Tilgangurinn er  jafnframt sá að eiga og reka þau dvalarheimili, íbúðir eða þjónustumiðstöðvar sem það byggir.

Sigurður V. Viggósson er formaður stjórnar og aðrir stjórnarmenn eru Arnheiður Jónsdóttir og Guðrún Eggertsdóttir. Varamenn eru Þórkatla Soffía Ólafsdóttir, Jón Árnason og Ásgeir Sveinsson..

Aðalfundur félagsins var haldin í byrjun mánaðarins og fóru fram umræður um hugsanlegt samstarf við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða um húsnæði vegna félagsstarfs aldraðra.

DEILA