Karlalið Vestra í knattspyrnu fær á miðvikudaginn Fjölni úr Grafarvoginum í heimsókn á Olísvöllinn á Ísafirði þar sem liðin keppa um sæti í úrslitaleik Lengjudeildarinnar um sæti í Bestu deildinni á næsta ári. Leiknir verða tveir leikir, á Ísafirði og í Grafarvoginum og sigurvegarinn úr viðureigninni mætir annaðhvort Aftureldingu eða Leikni í Breiðholti í hreinum úrslitaleik um sæti í Bestu deildinni.
Síðasta umferð Lengjudeildarinnar var leikin á laugardaginn og Vestri fór til Selfoss og lék við heimamenn. Leikið var við erfiðar aðstæður og auk þess voru Selfossmenn að berjast fyrir sæti sínu í deildinni. Engu að síður fór Vestri með sigur af hólmi 2:1 og Selfoss féll niður um deild.
Davíð Smári Lamunde, þjálfari Vestra sagðist í samtali við Bæjarins besta vera sáttur við leik sinna manna, þeir hefði barist vel í leiknum og uppskorið sigur. „Sigurinn er gott vegarnesti fyrir leikinn á miðvikudaginn“ sagði Davíð Smári.
Eftir rólega byrjun á mótinu hefur gengi Vestra stigið eftir því sem liðið hefur á sumarið og liðið endaði í 4. sæti deildarinnar. „Við erum með besta heimavallaárangurinn í deildinni með 7 sigra, tvö jafntefli og tvö töp. Stuðningur bæjarbúa skiptir alveg gríðarlegu máli. Vestfirðingar hafa verið duglegir að mæta á völlinn og hvetja sína menn.“
Davíð Smári segir í raun alveg sama hvaða liði Vestri hefði mætti í umspilinu. Liðinu hafi gengið vel seinni hluta mótsins og væri að spila vel. Vestri gerði jafntefli við Fjölni í Grafarvoginum fyrr í sumar og vann þá nokkuð örugglega á Ísafirði í síðari leik liðanna. Davíð Smári sagðist fullur tilhlökkunar og sagði Vestra tilbúinn að takast á við Fjölnismenn í síðasta heimaleik sumarsins.
Það verður frítt á völlinn á miðvikudaginn á leikinn sem hefst kl 16:30 og nú er það sem aldrei fyrr: áfram Vestri!