Veðrið í sumar fremur viðburðalítið

Sumarið 2023 var fremur viðburðalítið er kemur að veðurviðvörunum, en einungis sjö gular viðvaranir voru gefnar út þetta sumarið og voru þær allar vegna vinds.

Þær skiptast þannig að fimm voru gefnar út í júní, tvær í júlí, en engin viðvörun var gefin út í ágúst mánuði. Sumarið sker sig út er horft er til baka, en síðastliðin fimm sumur voru um 36 viðvaranir gefnar út að jafnaði. Þetta kemur fram í samantekt Veðurstofunnar.

Sumarmánuðirnir hafa verið mjög ólíkir, þá sérstaklega júní og júlí. Í júní voru suðvestlægar áttir ríkjandi. Það var óvenjulega hlýtt og sólríkt á norðaustan- og austanverðu landinu.

Þetta var hlýjasti júnímánuður frá upphafi mælinga á Akureyri og Egilsstöðum og jafnframt hlýjasti sumarmánuðurinn þar þetta árið. Á meðan var júnímánuður sérlega úrkomusamur og sólarlítill á sunnan- og vestanverðu landinu.

Í júlí voru aftur á móti norðan- og norðaustanáttir ríkjandi allan mánuðinn. Það var kalt á Norður- og Austurlandi en að tiltölu hlýrra suðvestanlands. Þá var óvenju þurrt og sólríkt á sunnan- og vestanverðu landinu og var þetta víða þurrasti júlímánuður frá upphafi mælinga í þeim landshlutum. Ágúst var svo tiltölulega hlýr, hægviðrasamur og þurr.

DEILA