Varað við skriðuhættu samhliða miklu vatnsveðri um helgina

Veðurstofan hefur sent út aðvörun vegna aukinnar skriðuhættu á vestan- og sunnanverðu landinu um helgina samhliða því að lægð gengur upp að landinu í kvöld og fer hratt yfir það. Gul viðvörun er auk þess vegna hvassviðris, hér um vestanvert landið frá klukkan 21 í kvöld og þar til í fyrramálið.

Lægðinni fylgir mikil úrkoma sem fellur á skömmum tíma. „Gera má ráð fyrir mikilli úrkomu á vestan- og sunnanverðu landinu frá föstudagskvöldi og fram á sunnudag. Úrkomuákefðin verður mest frá kvöldi föstudags og fram yfir hádegi á laugardag.

Gera má ráð fyrir að það verði rigning mest alla helgina á þessum svæðum. Ríkjandi suðlægir vindar og mikið hvassviðri fylgir lægðinni sem þýðir að hlíðar sem standa áveðurs verða fyrir mestum áhrifum af úrkomunni,“ segir í tilkynningu Veðurstofunnar.

Um vestanvert landið er reiknað með mestri úrkomuákefð á sunnanverðum Vestfjörðum og á Snæfellsnesi, en á sunnanverðu landinu á það við um svæðið í grennd við Þingvelli, undir Eyjafjalla- og Mýrdalsjökli og í Skaftafelli. „Staðbundin áhrif úrkomunnar geta orðið mikil en erfitt er að spá fyrir hvar mesta úrkoman fellur og því er réttast að vara við vatnavöxtum í lækjum í bröttum hlíðum og hættu á skriðuföllum á ofangreindum stöðum.“

DEILA