Þingeyri: Stjórnarskipti í Blábankanum

Sædís Ólöf Þórsdóttir, formaður stjórnar Blábankans.

Nú á dögunum fóru fram stjórnarskipti í Blábankanunm þar sem Sædís Ólöf Þórsdóttir tók við af Katli Berg Magnússyni sem stjórnarformaður. Þá kom Kristján Davíðsson inn nýr í stjórn.

Fráfarandi formaður Ketill Berg Magnússon segir í fréttatilkynningu:

“Mér finnst mikill heiður að hafa fengið að starfa með teyminu í Blábankanum undanfarin ár og taka þátt í þessu frábæra starfi. Núna í vor settum við skarpari sýn fyrir starfið og viljum vera miðstöð sköpunar á Vestfjörðum. Blábankinn er vettvangur skapandi starfs fyrir íbúa Dýrafjarðar, alla Vestfirðinga og skapandi gesti. Stórar hugmyndir byrja allar sem frækorn í huga okkar og ég er sannfærður um að Þingeyri og Blábankinn er frábær staður til að búa til verðmætt hugvit sem skapar virði í góðri sátt við umhverfið og fólk framtíðarinnar. Eftir fjögur ár sem stjórnarformaður finnst mér rétt að skila keflinu til næsta teymis og ég hef fulla trú á að það góða fólk muni lyfta starfi Blábankans á næstu hæðir. “

Gunnar Ólafsson, Blábankastjóri segir að mikil ánægja sé í því að fá Sædísi í sama hlutverk. Hún sé öflug, áræðin og frjór leiðtogi sem muni setja mark sitt á starfið á komandi árum. „Mun reynsla hennar og útsjónarsemi vera okkur sterkur kompás.“

Sædís segir Blábankann eiga sérstakan stað í hennar hjarta frá því að hún tók þátt í Start Up Westfjords árið 2019.

„Undanfarið ár naut ég þess heiðurs að sitja í stjórn Blábankans. Það hefur verið þrælskemmtilegt að taka þátt í að móta stefnu hans næstu árin og fylgjast náið með þeim fjölbreyttu verkefnum bankans, stórum sem smáum síðustu 12 mánuði. Framtíðin er björt fyrir skapandi Dýrfirðinga, skapandi Vestfirðinga og skapandi gesti. Næst tekur við seta sem stjórnarformaður og styðja við Gunnar Ólafsson, nýjan Blábankastjóra sem mun stýra fleyi Blábankans að suðupotti sköpunar á Vestfjörðum.“

Stjórnin er þannig skipuð:

Sædís Ólöf Þórsdóttir, formaður.

Helgi Ragnarsson, f.hönd Arctic Fish

Guðrún Steinþórsdóttir, f.hönd íbúasamtakanna Átak.

Kristján Davíðsson, óháður.

DEILA