Slysasleppingar: enginn skaði skeður

Frá Arnarfirði. Mynd: Arnarlax.

Fyrir helgina staðfesti Hafrannsóknarstofnun að eldislaxar hefðu sloppið úr kví í Patreksfirði og veiðst í ám. Alls greindust 27 laxar í Patreksfirði og ellefu ám. Langflestir veiddust þeir á Vestfjörðum eða 19 og 8 laxar veiddust utan Vestfjarða. Fleiri laxar bíða greiningar og gæti talan því hækkað.

Þegar eldislax sleppur úr kví er það alltaf slæmt. Fyrirtækið sem elur laxinn tapar tekjum og sleppilax sem lifir af getur gengið í laxveiðiár og blandast stofni sem þar er fyrir. Það er svo umdeilt hver skaðinn er af blönduninni og á það er bent að ræktaður eldislax er síður hæfur í náttúrulegu umhverfi en villtur lax og því sjái náttúruvalið til þess að villti stofninn hafi að lokum betur.

Ólafur Sigurgeirsson, lektor við fiskeldis- og fiskalíffræðideild Hólaskóla blandar sér í umræður við aðsenda grein Bubba Morteins á visir.is um helgina og spyr: „Getur greinarhöfundur -eða einhver annar- bent á einhver dæmi þess að erfðablöndun milli eldislaxa og villtra laxa hafi útrýmt villtum laxastofni?“ Engin svör hafa borist við spurningunni.

engin merki um Elliðaárstofninn í Djúpinu

Minna má á að áður fyrir var stunduð umfangsmikil rækun með lax í ám hér á landi. Dæmi um það er Laugardalsá í Ísafjarðardjúpi. Þar var um 54.000 seiðum frá Laxalóni og Kollafirði sleppt í ána á árunum 1965 – 1991. Varla er hægt að tala um að stofn hafi verið til fyrir í ánni, svo smár var hann. Sleppingarnar voru því um langt árabil mjög hátt hlutfall miðað við stofninn og því mikil blöndun milli stofnana að ræða. En svo var þessu hætt og forstjóri Hafrannsóknarstofnunarinnar sagði í viðtali við RUV árið 2017 að engin merki væru um Elliðaárstofninn í Djúpinu. Telur hann sérstaklega fram að í Laugardalsá sjáist engin merki um Elliðaárstofninn. Auk .þess voru um langt árabil miklar sleppingar í Langadalsá.

Þetta er í samræmi við niðurstöðu fræðimanna sem er á þann veg að til þess að um varanlega erfðablöndun verði milli stofna þurfi mikla innblöndun í langan tíma og þegar henni linni þá gangi erfðablöndunin til baka. Til dæmis hefur ástand laxastofna í mörgum norskum ám batnað á síðustu árum.

engin erfðablöndun

Á Íslandi hafa stjórnvöld nýtt sér lærdóm Norðmanna og tekist að forðast mistök sem þar voru gerð. Fyrir vikið hefur laxeldi síðustu ára ekki haft nein skaðleg áhrif á villta laxastofna í ám með nytjastofn.

Laxeldi er bannað þar sem helstu laxastofnar landsins eru og aðeins leyft þar sem óverulegir hagsmunir eru af laxveiði. Í raun er sjókvíaeldið aðeins leyft á Vestfjörðum, í Eyjafirði og á hluta af Austfjörðum. Fyrir suðurströndinni eru engar aðstæður fyrir eldið.

Í skýrslu Hafrannsóknarstofnunar frá 2020 kemur fram að á árunum 2018 og 2019 hafi aðeins greinst 18 eldissleppilaxar í sjókvíum og flestir þeirra veiddust innan Vestfjarða. Tilkynnt var um 5 tilvik slysasleppinga á þessum árum. Metur stofnunin að fjöldi laxa sem sloppið hafi úr kvíum sé sami og talið er í Noregi eða um 0,8 lax á hvert framleitt tonn og að af þeim séu kynþroska stroklaxar, sem ganga í veiðiár til hrygningar um 2,2 á hvert eitt þúsund tonn framleidd, sem er heldur færri fiskar en í Noregi, en þar er hlutfallið talið vera 2,6.

Þetta mat Hafrannsóknarstofnunar þýðir að áætlað er að í fyrra hafi um 36.000 laxar sloppið og að 100 laxar gangi kynþroska upp í ár. Framleiðslan var 45.000 tonn af eldislaxi.

Það sem máli skiptir er seinni talan, 100 laxarnir, þeir geta haft áhrif á á laxastofna sem eru fyrir með því að taka þátt í hrygningu. Almennt er töluvert villuráf, sem kallað er, milli laxastofna, kannski um 5% og það er ekki talið leiða til erfðafræðilegar breytinga á stofni. Hafrannsóknarstofnun telur að meðan innblöndun sé undir 4% sé ekki hætta á ferðum. Þannig væri t.d. í laxveiðiá með stofn upp á 500 fullorðna fiska ekki ástæða til að hafa áhyggjur þótt allt að 20 þeirra væru erfðablandaðir. Þessi innblöndun yrði svo að vera viðvarandi til þess að hafa áhrif til lengri tíma.

Ragnar Jóhannsson rannsóknastjóra fiskeldis hjá Hafrannsóknastofnun segir í grein sem birtist í Bændablaðinu í sumar  að rauntölur frá Noregi hafi sýnt að eldisfiskur hefur margfalt minni æxlunarhæfni heldur en villtur fiskur og „því má reikna með því að erfðablöndunin verði einnig margfalt minni en ágengnin. Að mati færustu vísindamanna á þessu sviði þarf ágengni að vera að minnsta kosti 4% á hverju ári áratugum saman til þess að erfðablöndun nái að skerða hæfni stofns árinnar.“

Ragnar segir að forsendur áhættumatsins sem stuðst er við þegar metin er áhætta af erfðablöndun hafi staðist.

Tölurnar sem nú eru tiltækar um greinda eldislaxa sem sloppið hafa eru innan þeirra marka sem áhættumatið gerir ráð fyrir.

Engin staðfest dæmi eru til um erfðablandaðan kynþroska lax í einhverjum nytjastofni, aðeins til fáein dæmi um blendingsseiði.

Þannig er staðan í dag. Engum laxastofni hefur verið útrýmt. Enginn stofn er í hættu vegna erfðablöndunar. Enginn stofn er erfðablandaður svo vitað sé um. Enginn skaði er skeður varðandi villta laxastofna.

en mikill ávinningur

Hins vegar er mikill ávinningur þjóðarbúsins öllum ljós. Útflutningsverðmæti síðasta árs eru nærri 50 milljarðar króna og gæti verið ríflega 100 milljarðar króna þegar útgefin leyfi verða fullnýtt. Laxinn er verðmætari en sjálfur þorskurinn.

Við vitum hvað ríkið og sveitarfélögin fá í tekjur af laxeldinu, það eru milljarðar króna og störfin sem orðið hafa til eru talin í hundruðum. Þessi starfsemi verður sífellt mikilvægari til þess að bæta lífskjör landsmanna og vaxtarmöguleikarnir eru enn miklir. Aðstæður í vestfirskum fjörðum eru góðar til laxeldis. Það er auðlind sem er í vaxandi mæli nýtt til verðmætasköpunar.

Höldum því áfram af fullum krafti.

-k

DEILA