Sjókvíaeldi: hækkun fiskeldisgjalds um 600 milljónir króna – verður mun hærra en veiðigjaldið

Nýja laxasláturhúsið í Bolungavík. Eldislaxinn færir ríkissjóði meiri tekjur af hverju kg í gjaldi en þorskurinn.
Hið nýja laxasláturhús í Bolungavík. Mynd: Björgvin Bjarnason.

Áætlaðar tekjur ríkissjóðs af fiskeldisgjaldi á næsta ári hækka um 600 m.kr. frá yfirstandandi ári og eru áætlaðar verða 2.100 milljónir króna. Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpi 2024 sem lagt var fram í gær.

Fiskeldisgjald var lagt á með lögum árið 2019 og er 3,5% af alþjóðlegu markaðsvirði á Atlantshafslaxi þegar verð er 4,8 evrur á kg eða hærra. Þegar markaðsverðið er lægra verður gjaldið 2% og 0,5% ef markaðsverðið er lægra en 4,3 evrur. Markaðsverðið er hátt og miðar fjárlagfrumvarpið við hæstu álagningu.

Fiskeldigjaldið er innleitt í jöfnum áföngum frá árinu 2020 og á árinu 2026 verður það komið til fullrar álagningar. Á næsta ári hækkar gjaldið í 5/7 af fullu gjaldi en auk þess hyggst ríkisstjórnin hækka fiskeldisgjaldið úr 3,5% í 5% svo á næsta ári kæmu í raun tvær hækkanir til, fimmta áfangahækkunin og svo prósentuhækkunin sem ein og sér er 43% hækkun gjaldsins í krónutölu.

Á þessu ári er fiskeldisgjaldið 18,33 kr/kg af slægðum laxi.

Ekki er nánar gerð grein fyrir fiskeldisgjaldinu í fjárlagafrumvarpinu, en miða á við nýjasta 12 mánaða meðaltal alþjóðlegs markaðsverðs á Atlantshafslaxi. Skv. forsendum síðasta árs má ætla að fiskeldisgjald næsta árs verði 32,73 kr/kg.

Veiðigjald í sjávarútvegi sem lagt er á veiðar á villtum fiski í sjó er á þessu ári fyrir óslægðan þorsk 19,17 kr/kg.

Fiskeldisgjaldið umreiknað í óslægðan lax er á þessu ári 15,76 kr/kg og það yrði á næsta ári 28,15 kr/kg og verður það þá orðið verulega hærra en veiðigjaldið.

DEILA