Púkinn kveður með brosi

Gríðarlegt fjör var um alla Vestfirði á föstudaginn er lokahátíðir barnamenningarhátíðarinnar Púkans fóru fram.

Öllum grunnskólabörnum á svæðinu var boðið til skemmtunar og voru tvær haldnar í Edinborgarhúsinu á Ísafirði, ein í Félagsheimili Bolungarvíkur, Sauðfjársetrinu á Ströndum og Skjaldborg á Patreksfirði.

Þar var sýnt frá ýmsu því sem gert hafði verið á hátíðinni sem hófst þann 11. september og stóð til og með 22. september.

Allra handa listasmiðjur með ólíku listafólki voru haldnar á meðan á hátíðinni stóð og var samanlagður fjöldi viðburða hátt á sjöunda tuginn.

Krakkarnir fengu að kynnast ólíkum listformum í smiðjum innan skólanna: dansi, sagnagerð, myndskreytingu, gervigreindarlist og grímugerð svo eitthvað sé nefnt og einnig voru skemmtilegar smiðjur utan skólanna.

DEILA