Púkafréttir frá Drangsnesi: Strandakrakkar kynnast Ísleifi Konráðssyni

Frá Drangsnesi. Mynd Þórunn Björnsdóttir.

Listasýningin Ísleifur á heimaslóð opnaði 27. ágúst í gamla bókasafninu á Drangsnesi.

Ísleifur Sesselíus Konráðsson ólst upp á Hafnarhólmi sem er rétt fyrir utan Drangsnes. Hann byrjaði að vinna þegar hann var 15 ára og flutti 19 ára til Reykjavíkur til að vinna.  Hann bjó líka í  Kaupmannahöfn og ferðaðist til New York.

Fyrstu málverkasýninguna hélt Ísleifur rétt áður en hann varð 73 ára, þá hafði hann loksins tíma til þess að mála. Hann hélt 8 málverkasýningar.

Á sýningunni hér á Drangsnesi eru 7 málverk eftir Ísleif, flestar  myndirnar eru af náttúrunni hér á Ströndum til dæmis fuglamynd, mynd af Grímsey og Drangaskörðum.

Við erum hrifnust af hestamyndinni, hún er mjög litrík og skemmtileg.     (mynd af málverki)               

Eftir að sýningin opnaði á Drangsnesi var haldin listasmiðja og nemendum í Grunnskóla  Drangsness og  Grunnskóla Hólmavíkur boðið að taka þátt. Listasmiðjan var dagana 28.-31. ágúst í Grunnskóla Drangsness og samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi.

Við byrjuðum á því að fara á  sýninguna í bókasafninu sem er pínulítið. Þar skoðuðum við málverk Ísleifs og Þórunn Björnsdóttir kennari bað okkur um að hlusta á myndirnar. Við áttum að hugsa hvernig hljóð myndi vera í myndum og svo fórum við í samkomuhúsið og Þórunn kenndi okkur að gera hljóð úr sjónum og fuglahljóði. (mynd af börnum í fjöru)

Við unnum saman i pörum og svo fluttum við hljóðverkin okkar. Krakkarnir á yngsta stigi og á unglingastigi unnu önnur verkefni en kennarar listasmiðjunnar voru Þórunn, Inga Þórey, Guðbjörg og Ásta skólastjórinn okkar.

Sýningin var haldin hér vegna þess að hér á Drangsnesi bjó Ísleifur, sýningin heitir einmitt Ísleifur á heimaslóð. Listasmiðjan var haldin  til að kynna heimamanninn Ísleif fyrir okkur Strandakrökkunum. Við lærðum að Ísleifur var góður málari þrátt fyrir að hann fór ekki í listaskóla og í smiðjunni lærðum við að hlusta á náttúruna og nota hljóð úr henni til þess að búa til tónlist.

Ísleifur á heimaslóð er opin til 17. september, við mælum með vegna fjölbreytileika og mjög áhugaverðum verkum.

 Næsti stóri atburður á Drangsnesi er Bryggjuhátið sumarið 2024

Höfundar: Írís Líf Þuríðardóttir, Friðgeir Logi Halldórsson, Tómas Fisera, Maríanna Fiserova, Katrín Halla Finnsdóttir og Hannh Kalt

Púkafréttir eru liður í barnamenningarhátíð á Vestfjörðum.

Mynd: Ásta Þórisdóttir.

DEILA