Pósthúsum lokað í Bolungavík og Súðavík

Ráðhúsið í Bolungavík.

Pósturinn lokaði um síðustu mánaðamót samstarfspósthúsunum í Bolungavík og í Súðavík, en fyrirtækið hafði rekið þau um árabil í samstarfi við sveitarfélögin.

Í gær var haldinn íbúafundur í Súðavík þar sem kynnt var hvernig framtíðarpóstþjónustan yrði. Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri sagði í samtali við Bæjarins besta að í mars síðastliðnum hefði sveitarfélagið skilað umsögn sinni um fyrirhugaðar breytingar til Byggðastofnunar og að svo virtist sem að stofnunin hafi ekki skilað frá sér umsögninni til Póstsins og lýst afstöðu sinni um þjónustu fyrr en í byrjun september.

Í bréfi til íbúa Bolungavíkur segir Pósturinn tryggð verði áfram góð þjónusta með póstboxi, póstbíl, landpóstum og þjónustu frá pósthúsinu á Ísafirði.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungavík segist harma þessa niðurstöðu. Bolungavík hafi rekið þjónustuna síðan 2016 og veitt afbragðsþjónustu þótt greiðslur frá Póstinum hafi ekki staðið undir kostnaði og sveitarfélagið hafi greitt mismuninn. Hann sagði þó ákvörðinuna ekki koma mikið á óvart og sér sýndist að verið væri að minnka þjónustuna.

Á vefsíðu Póstsins er ekki að finna upplýsingar um þessa breytingu á postþjónustuna.

DEILA