Pigeon International Film Festival (PIFF) verður á Ísafirði 12.-15. október

Hátt í 50 myndir frá öllum heimshornum hafa verið valdar á kvikmyndahátíðina Pigeon International Film Festival (PIFF) sem fer fram á Ísafirði 12.-15. október. Voru þær valdar úr hópi 900 umsókna sem bárust frá öllum heimshornum.

„Hvað gerist þegar vegan-uppvakningur leikur lausum hala? Hvað gerist þegar öll tækni dettur niður vegna sterkra sólarvinda og hvað gerist þegar transmaður fær heimsókn frá barnsföður sínum og dóttir hans veit ekki af fortíð hans. Þetta er bara brot af þeim spurningum sem svarað verður í kvikmyndaflóru hátíðarinnar í ár,“ segir Thelma Hjaltadóttir fjölmiðlafulltrúi hátíðarinnar.

Sjö kvikmyndir í fullri lengd verða á dagskrá ásamt fimm heimildamyndum og þrettán teiknimyndum. Restin eru svo stuttmyndir. „Það verður eitthvað fyrir alla – því þorum við að lofa,“ segir Thelma. Myndirnar koma meðal annars frá Malasíu, Póllandi, Ástralíu, Finnlandi, Spáni, Íran og Íslandi.


Þetta er í þriðja sinn sem hátíðin er haldin en nú verður hún í fyrsta sinn haldin í öllum fjórðungnum þar sem sýningar fara fram á Ísafirði, Súðavík og Patreksfirði. Dagskráin verður nánar kynnt er nær dregur en fylgjast má með á Facebook-síðu hátíðarinnar.

https://www.facebook.com/isafjordurpiff

DEILA