Orkubú Vestfjarða: setur upp hleðslustöðvar á Flateyri og Suðureyri

Hraðhleðslustöð OV í Reykjanesi.

Orkubú Vestfjarða hefur fengið samþykki bæjarráðs Ísafjarðarbæjar fyrir uppsetningu tveggja rafhleðslustöðva á Flateyri og Suðureyri.

Verða settar upp tvær 22kW AC hleðslustöðvar á bílaplanið við sundlaugina á Flateyri og tvær 22kW AC
hleðslustöðvar á bílaplanið við sundlaugina á Suðureyri. Hver stöð getur hlaðið tvo bila samhliða með 22kW afli á hvort tengi og því myndu fjórir rafbílar geta hlaðið í einu á hverjum stað með þessu fyrirkomulagi.

Vill Orkubúið setja stöðvarnar sem næst sundlaugunum.

Orkubúið rekur í dag um tuttugu hleðslustöðvar á tólf stöðum víðs vegar um Vestfirði og segir í erindi þeirra til Ísafjarðarbæjar að markmiðið sé að efla hleðsluinnviði á Vestfjörðum og gera heimamönnum jafnt sem ferðamönnum að taka þátt í orkuskiptunum á Íslandi.

DEILA