Óbyggðanefnd: engin þjóðlenda í landi Ísafjarðarbæjar

Í úrskurði Óbyggðanefndar í máli nr 4/2021 um fjalllendi milli Ísafjarðardjúps, Álftafjarðar og Önundarfjarðar, auk Stigahlíðar er það niðurstaða Óbyggðanefndar er að ekki eru þjóðlendur á landsvæðinu.

Ísafjarðarbær átti aðild að málinu sem landeigandi.

Kröfur Ísafjarðarbæjar tóku til Eyrar í Önundarfirði, Selársdals í Súgandafirði, Neðri-Hnífsdals, Bakka í Hnífsdal, Eyrar í Skutulsfirði ásamt Stakkanesi, Seljalands í Skutulsfirði, Tungu í Skutulsfirði og Kirkjubóls í Skutulsfirði. Lögmaður Ísafjarðarbæjar var Friðbjörn Garðarsson, hjá AX lögmönnum.
Í grófum dráttum voru kröfur Ísafjarðarbæjar viðurkenning á beinum eignarrétti að landi viðkomandi
jarðar í samræmi við merkjalýsingar þinglýstra landamerkjabréfa, eftir nánari lýsingum og uppdráttum.

Í minnisblaði sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs Ísafjarðarbæjar kemur fram að kostnaður sveitarfélagsins vegna málarekstursins haf verið kr. 5.759.600 og ríkið hafi þegar endurgreitt Ísafjarðarbæ allan kostnaðinn.

Ríkið hélt því fram almennt að efstu hlutar fjalla væru þjóðlendur og að eignarlönd jarða beggja vegna næðu ekki saman uppi á fjöllum. Fjallsbrúnir mynduðu skörp skil í landslagi, t.d. við frambrún kletta og réðu merkjum eignarlanda gagnvart þjóðlendum.

Í slíkum tilvikum séu að mati ríkisins landfræðilegar aðstæður oft með þeim hætti að innan fjallsbrúna, þ.e. ofan á fjalli, liggi tiltölulega flatlent svæði eða skýrt afmarkað. Þegar landamerkjum sé lýst í fjallsbrún, í fjall eða á fjall sé almennt litið svo á að merki séu dregin í fjallsbrúnir í þeirri merkingu. Sé merkjum ekki lýst lengra, landamerkjalýsingar séu óskýrar eða landfræðilegar aðstæður með þeim hætti að svæði séu t.d. lítt
aðgengileg, lítt gróin og í töluverðri hæð sé víða gerð krafa um að slíkt land, ofan fjallsbrúna, verði úrskurðað þjóðlenda.

Gagnaðilar íslenska ríkisins byggðu aftur á móti jafnan á því að túlka beri landamerkjabréf og aðrar heimildir um merki jarða á þessu svæði á þann veg að landamerki jarðanna nái upp á efstu hluta fjallanna og að þegar hugtakið fjallsbrún kemur fyrir í merkjalýsingum sé átt við vatnaskil.

Óbyggðanefnd segir í niðurstöðukafla sínum að mjög algengt er að vatnaskil efst á fjöllum ráði merkjum milli jarða, sérstaklega í tilvikum þar sem ekki er um að ræða mjög víðfeðma fjallgarða eða heiðarlönd, eða að lönd jarða nái a.m.k. saman uppi á fjöllum án þess að nákvæmlega sé skilgreint með hvaða hætti.

Var það niðurstaðan í þessu máli, eins og fyrr er rakið, að engar þjóðlendur eru á svæðinu.

DEILA