M.Í.: fær áfram styrk frá sveitarfélögum til afreksbrautar

Menntaskólinn á Ísafirði. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Ísafjarðarbær mun styrkja afreksbraut Menntaskólans á Ísafirði um 1,9 m.kr. á ári. Verður styrkurinn veittur í formi þess að lækka greiðslur Menntaskólans fyrir afnot af íþróttahúsinu á Torfnesi um 237.000 kr. á mánuði. Bæjarráðið samþykkti þetta á fundi sínum á mánudaginn.

Þá mánuði sem menntaskólinn er starfræktur borgar hann u.þ.b. 400-500 þúsund til Ísafjarðarbæjar í leigu á mánuði fyrir afnot af íþróttahúsinu Torfnesi.

Styrkurinn hefur verið kr.2.500.000 árlega frá 2018 og skiptist hlutfallslega á milli Ísafjarðarbæjar, Bolungarvíkur og Súðavíkur. Bolungavíkurkaupstaður og Súðavík greiddu sinn hlut fyrir 2022 að fullu en Ísafjarðarbær greiddi fyrir vorönn en ekki vetrarönn.

Í bréfi skólameistara M.Í. segir að afreksíþróttasviðið hafi verið blómlegt frá því að það var endurvakið árið 2018 og að fjöldi íþróttagreina er þar í boði og eru tilgreindar einar ellefu greinar.

DEILA