Lýðskólinn Flateyri: minni stuðningur frá Ísafjarðarbæ

Nýtt húsnæði nemendagarða á Flateyri. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Í lok maí 2023 rann út samningur Ísafjarðarbæjar og Lýðskólans á Flateyri um stuðning sveitarfélagsins. Ísafjarðarbær styrkti Lýðskólann með því að skólinn fékk fá afnot af Félagsheimilinu á Flateyri, sem er í eigu Ísafjarðarbæjar. Jafnframt veitti Ísafjarðarbær styrk fyrir afnotum af sundlauginni og íþróttasalnum á Flateyri, alls 10 klukkustunum á viku vegna íþróttastarfsemi eða viðburða á vegum skólans.

Nú hyggst Lýðskólinn ekki nota samkomuhúsið á Flateyri lengur til reglubundinnar kennslu og sækist því ekki eftir að hafa það til afnota nema í afmörkuð verkefni. Óskaði skólinn eftir því að fá tvo tíma á viku í sal íþróttahússins á Flateyri endurgjaldslaust á komandi skólaári. Miðað við núgildandi gjaldskrá Ísafjarðarbæjar samsvarar þetta kostnaði upp á kr. 51.040 á mánuði eða kr. 408.320 yfir skólaárið og miðast sú upphæð við að allir tímarnir séu nýttir.

Bæjarráð samþykkti beiðni Lýðskólans á Flateyri um að nýta tvo tíma í íþróttahúsinu á Flateyri endurgjaldslaust sem bókast sem fjárstyrkur til skólans.

Jafnframt taldi bæjarráð rétt að skoða framtíð félagsheimilisins. Fyrsta skrefið væri að ganga formlega frá skráningu eignarhalds, sem bæjarstjóra var falið að gera.

DEILA