Kóralþörungabúsvæði könnuð á Vestfjörðum

Mynd tekin úr leiðangrinum við Kaldalón að Æðey.

Starfsmenn Hafrannsóknastofnunar heimsóttu Vestfirði um miðjan ágústmánuð í hinu fegursta veðri .

Tilefni ferðarinnar var að kanna fögur og fjölskrúðug kóralþörungabúsvæði á hafsbotni, bæði í Ísafjarðardjúpi og Jökulfjörðum.

Kóralþörungar eru kalkkenndir rauðþörungar sem mynda hríslur sem minna á kórala. Þeir geta setið lausir á sjávarbotni eða vaxið sem hrúður, á steinum eða skeljum.

Mynd tekin af kóralþörungum á hafsbotni.

Kóralþörungarnir vaxa mjög hægt og eru fallega bleikir þegar þeir eru lifandi en verða hvítir þegar þeir deyja. Greinóttir kóralþörungar mynda afar viðkvæm búsvæði, hýsa fjölbreytilegt lífríki og hafa hátt verndargildi.

Byrjað var á því að sigla að Höfðabót og Veiðileysufirði í Jökulfjörðum og svæðin skoðuð með myndavél sem var dregin á eftir skipinu.

Þar var leitað að lifandi og dauðum þörungum og merktir heppilegir staðir til sýnatöku. Þetta var endurtekið við Æðey og Kaldalón í Ísafjarðardjúpi. 

Mynd af kóralþörungasýnum áður en þeim var pakkað saman

Síðar var snúið aftur á staðina sem virtust lofa góðu. Þar stukku kafararnir út í og sóttu sýnin. Sýnin voru skoðuð um borð og gengið frá þeim þannig hægt væri að vinna betur úr þeim í landi.

Leiðangurinn var hluti af verkefni sem safnar grunnupplýsingum um kóralþörunga við Íslandsstrendur.

DEILA