Ísafjörður: áhyggjur af slysasleppingum

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar ræddi á fundi sínum í gær slysasleppingar í sjókvíaeldi og fékk framkvæmdastjóra Arctic Fish Stein Ove Tveiten til fundar.

Í bókun bæjarráðsins segir að það hafi áhyggjur af slysasleppingum úr eldiskvíum. „Ímynd atvinnugreinarinnar og vöxtur eldis á Vestfjörðum á framtíð sína undir góðri framkvæmd og eftirliti eldisfyrirtækja, og að réttar upplýsingar um málsatvik og góð viðbrögð komi fram þegar atvik af þessu tagi gerast.“

Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðsins var inntur eftir því hvort það teldi að framkvæmd og eftirlit fyrirtækisins hafi verið áfátt og að skort hafi á að það kæmi á framfæri réttum upplýsingum um málsatvik og viðbrögð sín.

„það er rétt að við höfum af þessu áhyggjur. Okkur fannst tilefni til að heyra sjónarmið Arctic Fish í málinu, heyra hvað fyrirtækið hefði í hyggju með framhaldið bæði í upplýsingagjöf, viðbrögðum við slysinu sjálfu og breytingum á verklagi í framtíðinni. Ég lýsti þeirri skoðun minni að upplýsingagjöf hefði verið áfátt í tengslum við þetta slys. Það eru afar miklir hagsmunir fólgnir í því fyrir Vestfirðinga, Íslendinga og náttúruna að laxeldi sé stundað í sátt við náttúruna.“

DEILA