Ísafjarðarbær: veglína D valin um Dynjandisvog

Veglína D er fjólublá á myndinni.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt aðalskipulagstillögu um veglínu á Dynjandisheiði innan marka sveitarfélagsins. Tvær tillögur voru upphaflega lagðar fram um veglínuna í Dynjandisvoginum og varð D kosturinn ofaná. Aðalskipulagsbreytingin felur í sér breytingu á legu vegar nr. 60 yfir Dynjandisheiði og sex ný efnistökusvæði.

Núverandi Vestfjarðavegur um Dynjandisheiði liggur að hluta til á friðlýstu svæði og hverfisvernduðu svæði skv. aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar.

Aðalskipulagsbreytingin nær yfir um 11 km langan kafla Vestfjarðarvegar (60) á Dynjandisheiði frá Dynjandisvogi að sveitarfélagsmörkum Ísafjarðarbæjar og Vesturbyggðar.

Náttúrustofa Vestfjarða vann fornleifakönnun vegna breytinga á Vestfjarðavegi. Innan marka aðalskipulagsbreytingar hafa fundist tíu fornminjar, fjórar í landi Borgar og sex í landi Dynjanda.

Skipulagsstofnun sagði í sinni umsögn að veglína D liggi að stórum hluta um núverandi veg og feli í sér mun minna rask á óröskuðu svæði en veglína F. „Hún felur því í sér töluvert minni breytingu á landslagi svæðisins frá núverandi ástandi en veglína F. Helsti ókostur línunnar er rask á minjaheild við Búðavík.“ Engu að síður tók stofnunin ekki afstöðu til þess hvorn kostinn ætti að velja.

Aðalskipulagsbreytingin var kynnt í júní og bárust 11 umsagnir, 10 frá opinberum aðilum og ein frá íbúa. Þær leiddu ekki til breytinga á auglýstri tillögu að breyttu aðalskipulagi.

DEILA