Ísafjarðarbær: uppfærðar reglur um byggðamerki

Byggðamerki Ísafjarðarbæjar hefur verið uppfært hjá Hugverkastofu, en óverulegar breytingar sem gerðar voru árið 2020 höfðu ekki verið skráðar.

Skerpt var á útlínum og litum, litir tengdir ákveðnu litanúmeri, merki sett í ákveðin stærðarhlutföll, auk þess sem ákveðin leturgerð var tengd við notkun merkisins.

Menningarmálanefnd hefur samþykkt fyrir sitt leyti uppfærðar reglur um notkun byggðamerkisins.

Merkið var teiknað af Halldóri Péturssyni listmálara og tekið í notkun árið 1966, á 100 ára afmæli Ísafjarðarkaupstaðar. Merkið var uppfært af Pétri Halldórssyni myndlistarmanni árið 2011.

Útliti merkisins er svo lýst: Byggðarmerki Ísafjarðarbæjar sýnir bát á siglingu á sjávarfleti, til beggja handa eru há Vestfjarðafjöllin en úti fyrir firðinum er miðnætursólin að hníga til viðar.

Litir merkisins eru blár og rauður. Bátur, fjöll, neðri hluti masturs og neðri hluti mastursbanda eru svört, en bakgrunnur, efri hluti masturs og efri hluti mastursbanda eru hvít.

Öll notkun og birting merkisins skal vera með fyrirfram gefnu leyfi bæjarstjóra eða staðgengils hans. Fylgja skal reglum þessum í hvívetna.

Uppfærðu reglurnar verða lagðar fyrir bæjarstjórn á næsta fundi hennar.

DEILA