Hólmavík: 15 m.kr. í endurgerð leikskólalóðar

Lækjarbrekka. Mynd: Strandabyggð.

Meirihluti sveitarstjórnar í Strandabyggð samþykkti á síðasta fundi sveitarstjórnar að samið verði við fyrirtækið Litla Klett um endurgerð leikskólalóðarinnar um þá framkvæmd sem rúmast innan fjárhagsáætlunar, eða allt að 15 milljónir kr. Minnihlutinn sat hjá við afgreiðslu málsins. Í afgreiðslu sveitarstjórnarinnar segir að lagt verði upp með að þeir verkþættir verði unnir nú á haustmánuðum. Þar er um að ræða jarðvegsvinnu og uppsetningu girðingar og steyptra veggja. Nánari og ítarlegri útfærsla verði unnin af fulltrúum Litla Kletts, sveitarstjóra, starfsmönnum áhaldahúss og verkefnastjóra Verkís. 

Bjóðendum mismunað

Deilt var um málið og Matthías Sævar Lýðsson lagði fram bókun og gagnrýndi framkvæmd verðkönnunar. Þar segir að „Þeir sem leituðu eftir gögnum fengu ófullnægjandi gögn og óskuðu eftir betri gögnum sem þeir fengu ekki. Reyndar fengu ekki allir gögn sem leituðu eftir því. Það kemur svo í ljós að ítarlegri gögn voru unnin í lok ágúst og einn aðili fékk þau gögn til að gera tilboð.“

Ennfremur segir í bókuninni:

„Með því að taka einn aðila fram yfir aðra er verið að mismuna aðilum eitthvað sem sveitarfélag á ekki að gera. Með því að velja aðkomufélag til að gera þetta „heildartilboð“ og ganga framhjá heimamönnum er sveitarfélagið að hafa af sér skatttekjur og flytja atvinnu og tugmilljóna króna tekjur út úr sveitarfélaginu.
Ég lýsi fullri ábyrgð á þessum málatilbúnaði á hendur meirihluta sveitarstjórnar.“

því hafnað

Meirihluti Strandabandalagsins hafnaði Strandabandalagið alfarið þessum málatilbúnaði og segir í bókun að það að tengja saman verðkönnun sem gerð var snemma sumars og viðræðum við verktaka sem fara fram í ágúst gangi einfaldlega ekki upp og sé ekki sannleikanum samkvæmt.

Uppfært kl 15:06:

Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri segir að heimamönnum bauðst að gera tilboð í verkið, og meira að segja að ræða útfærslu á því eftir að fresturinn rann út.  „Ekkert tilboð barst og tilboði um viðræður var ekki svarað.  Mánuðum síðar hefjast viðræður við Litla Klett um verkefnið og er því fráleitt leggja þetta að jöfnu og segja að aðilar hafi ekki setið við sama borð.  Það er hreinlega ósatt.  Það er sömuleiðis óverjandi af minnihlutanum að fullyrða að með þessu sé verið að flytja atvinnu og tug milljóna tekjur úr sveitarfélaginu.  Það er í raun mjög að alvarlegt að kjörnir fulltrúar setji slíkt frá sér, án nokkurs rökstuðnings né staðreynda um málsatvik.“

Lýsing Þorgeirs á málsatvikum er eftirfarandi:

  • 15. maí var fyrst auglýst eftir verðhugmyndum vegna uppbyggingar leikskólalóðarinnar.  Frestur til að skila inn tilboðum var til 22. maí
  • 22. maí er skilafrestur framlengdur til 24. maí.
  • Tveir verktakar báðu formlega um gögn vegna þessa og fengu þau gögn sem þá lágu fyrir
  • Einn verktaki óskaði símleiðis eftir gögnum en sú fyrirspurn virðist hafa misfarist og viðurkennir viðkomandi að hafa ekki staðið rétt að sinni fyrirspurn
  • Einn verktaki lagði fram spurningar og athugasemdir varðandi þau gögn sem voru send.  Var því gerð önnur verklýsing sem var send á þá sem formlega höfðu óskað eftir gögnum
  • Ekkert tilboð barst þegar fresturinn rann úr þann 22 maí sl. 
  • Þeim verktaka sem hvað mest spurði um verkið var boðið, eftir að fresturinn var runninn út, upp á viðræður um útfærslu á verkinu.  Því boði var ekki svarað og leit sveitarstjóri því svo á að ekki væri raunverulegur áhugi fyrir hendi á að vinna verkið.  Þetta var í lok maí
  • Sveitarstjóri hóf síðar að ræða við aðra hugsanlega verktaka, utan sveitarfélagsins.  Sú umleitan skilaði engu
  • Í heimsókn Litla Kletts hingað í ágúst, vegna skoðunar á umfangi verkefnis við að ganga frá drenlögn við grunnskólann, barst leikskólinn í tal og reynsla þeirra af slíkum verkefnum.  Þetta var í lok ágúst, eða þremur mánuðum eftir að verkefnið var auglýst meðal heimamanna.  Í framhaldi af því lýsir Litli Klettur yfir áhuga á að taka að sér verkið og þar með hófust viðræður við þá
  • Litli Klettur kallaði eftir magnskrá, sem var ekki til.  Sveitarstjór vísaði á Landmótun og kallaði Litli klettur eftir magnskrá þaðan.  Á grundvelli hennar var síðan gert tilboð sem var til umræðu á sveitarstjórnarfundi 1350 þriðjudaginn 12. september sl. og meirihluti samþykkti að ganga til samningaviðræðna um.

Þorgeir segir það staðreynd, „að nú sér loks fyrir endann á þeirri bið eftir nýrri leikskólalóð sem Leikskólinn Lækjarbrekka og barnafólk og almenningur í Strandabyggð hefur staðið frammi fyrir í áraraðir.  Nú verður ný leikskólalóð að veruleika.  Það væri án efa heilbrigðara og uppbyggilegra fyrir alla, ef sú staðreynd fengi sömu athygli og þessar rangfærslur minnihlutans.“

DEILA