Gufudalssveit: stefnt að útboði brúnna á næsta ári

Slitlagslögn í Þorskafirði. mynd: Vegagerðin.

Sigurþór Guðmundsson deildarstjóri hjá Vegagerðinni segir stefnt að því að bjóða út á næsta ári smíði tveggja brúa í Gufudalssveit. Því verki yrði lokið 2026 eða 2027 og þar með lyki framkvæmdum í Gufudalssveitinni og 22 km stytting vegarins um sveitina væri öll komin í notkun.

Með útboðinu nú á fyllingum milli Hallsteinsness og Skálaness væri tryggt að brýrnar tvær yfir Gufufjörð og Djúpafjörð kæmu en í verkinu felst nýbygging Vestfjarðarvegar á um 3,6 km kafla og bygging á um 119 m langrar bráðabirgðabrúar yfir Gufufjörð. 

Opna Þorskafjarðarbrú í haust

Sigurþór taldi að lagning á slitlagi austan megin í Þorskafirðinum lyki í dag og vestan megin í framhaldinu. Þá er eftir frágangur og uppsetning vegriða en vonast er til að vegurinn yfir Þorskafjörð verði opnaður fyrir umferð síðar á þessu ári. Stefnt er að því að það verði í október. Þar með styttist Vestfjarðarvegur um tæpa 10 kílómetra.

Vegagerð um Teigsskóg er langt komin. Þar hefur undanfarið verið unnið að því að leggja bundið slitlag en stefnt er að því að opna veginn fyrir umferð í lok októbermánaðar. Óvíst er á þessu stigi hvort takist að setja slitlag á veginn í haust. Þar með verður hægt að leggja af fjallveginn um Hjallaháls sem er í 336 metra hæð.

DEILA