Fossvogsbrú: níu sinnum dýrari en jarðgöng

Áætlaður kostnaður við svonefnda Fossvogsbrú er 7,5 milljarðar króna samkvæmt því sem fram kemur á vef Vegagerðarinnar. Kostnaðurinn vegna hönnunar, framkvæmda, umsjónar og eftirlits er metinn á um 6,1 milljarð króna . Þá gerir kostnaðaráætlun ráð fyrir um 1,4 milljörðum vegna landfyllinga.

Samtals gerir þetta 7,5 milljarða króna.

Brúin yfir Fossvog er hluti af fyrsta áfanga Borgarlínunnar og markmiðið með henni er að bæta samgöngutengingar milli Reykjavíkur og Kópavogs. Brúin er ætluð fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur, sem og farþega almenningssamgangna en á brúnni verður sérrein fyrir Borgarlínuvagna. Leið gangandi og hjólandi vegfarenda milli Reykjavíkur og Kópavogs styttist um 1,2 km með tilkomu brúarinnar, auk þess sem hún tengir miðbæ Kópavogs betur við Háskólann í Reykjavík, Háskóla Íslands og miðbæ Reykjavíkur. Brúin verður 270 m löng og allt að 17,3 m að breidd.

Fróðlegt er að bera kostnaðinn við brúna við gerð jarðganga,sem eru að jafnaði dýrustu vegaframkvæmdirnar. Í jarðgangaáætlun vegagerðarinnar, sem gerð var í sumar er hver km af jarðgöngum með vegskálum talinn kosta 3,1 milljarð króna. Miðað er við verðlag í mars síðastliðinn.

Miðað við 7,5 milljarða króna fyrir 270 metra langa brú verður kostnaðurinn við hvern km um 28 milljarðar króna, sem er níu sinnum meira en kostnaðurinn við jarðgöng.

Fyrir 7,5 milljarð króna mætti gera 2,4 km af jarðgöngum með vegskálum.

DEILA