Fjárlagafrumvarp: gistináttaskattur á skemmtiferðaskip nærri þrefaldar tekjur ríkisins

Pétur Ólafsson, hafnarstjóri Hafnasamlags Norðurlands. Mynd: Vikublaðið.

Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir næsta ár er boðað að gistináttaskattur verði tekinn upp á nýjan leik frá og með áramótum og tekjur af skattinum eru áætlaðar verða 1,5 milljarður króna að óbreyttum lögum.

Lög um gistináttaskatt voru sett árið 2011 og er skatturinn 300 kr. á hverja gistinótt sem leigð er út. Í lögunum segir að með „gistiaðstöðu er átt við húsnæði eða svæði sem leigt er út í þeim tilgangi að þar sé dvalið yfir nótt, svefnaðstaða sé fyrir hendi eða hægt sé að koma henni fyrir og leigan sé almennt til skemmri tíma en eins mánaðar, svo sem hús, íbúðir og herbergi, þ.m.t. herbergi á hótelum og gistiheimilum, sem og tjaldstæði og stæði fyrir húsbíla, tjaldvagna, fellihýsi og hjólhýsi.“

Vegna covidfaraldursins var samþykkt með lögum að fella niður gjaldið frá 1. apríl 2020 til loka árs 2023. Hafa því t.d. hótel og aðrir gististaðir verið undanþegin gjaldinu nú á þriðja ár.

Sú breyting er boðuð í fjárlagafrumvarpinu að útvíkka gistináttaskattinn og láta hann ná til skemmtiferðaskipa. Myndi breytingin skila 2,7 milljörðum króna í viðbótartekjur og er því áætlað að skatturinn skili 4.175 milljónum króna í heildartekjur á næsta ári í stað 1.500 m.kr. að óbreyttum lögum. Í frumvarpinu segir: „Enn fremur eru áform um að breyta gildissviði skattsins og leggja á gjöld í tengslum við komur skemmtiferðaskipa en vinna stendur nú yfir með hagaðilum þar sem mat verður lagt á ólíkar leiðir um breytt gjalda- og skattaumhverfi fyrir greinina.“ Tekjuáhrif þeirra breytinga eru áætluð 2,7 ma.kr. 

Landsbyggðarskattur

Pétur Ólafsson formaður Cruise Iceland, samtaka hafna sem taka á móti erlendum skemmtiferðaskipum, sagði í samtali við Bæjarins besta að samtökin væri ekki andvíg gjaldtöku, en hún yrði að vera skynsamleg, fyrirsjáanleg og samræmd eftir ferðamátum. Þá ættu tekjurnar að renna líka til uppbyggingar heima í héraði. Ekki væri gert ráð fyrir að leggja sambærilegt gjald á ferðamenn sem koma til landsins með flugi. Á þessu ári koma um 10-12% erlendra ferðamanna með skemmtiferðaskipum en í fjárlagafrumvarpinu ætti gjaldtaka af þeim skila um 2/3 af heildartekjunum. Pétur minnti á að skemmtiferðaskipin dreifðu ferðamönnunum betur um landið en aðrir ferðamátar og koma þau á um 30 hafnir víðs vegar um landið.

Upplýsingarnar í fjárlagafrumvarpinu um tekjur af gjaldi á skemmtiferðaskipin hafa ekki lagst vel í útgerðir skemmtiferðaskipanna þar sem það þykir mjög hátt og fyrstu viðbrögð voru þau, samkvæmt heimildum Bæjarins besta, að ef þetta gengi eftir, yrði hætt við siglingar til Íslands.

DEILA