Fiskeldi: endurskoðun áhættumats frestað

Sigurgeir Bárðarson, lögfræðingur SFS.

Hafrannsóknarstofun hefur ákveðið að endurskoða drög að nýju áhættumati erfðablöndunar sem stofnunin vinnur að. Ástæðan er sú að stofnunin vill fá fullnægjandi upplýsingar um umfang og áhrif af slysasleppningunni í Patreksfirði í síðasta mánuði áður en lögð verði fram tillaga um nýtt áhættumat.

Haf­rann­sókna­stofn­un fram­kvæm­ir áhættumat á þriggja ára fresti og áætl­ar hversu mikið af eld­islaxi geti gengið upp í ár án þess að skaða villta laxa­stofn­inn. Í matinu eru 92 ár á landinu. Gildandi áhættumat er frá 2020. Í því er engin ágengni af eldislaxi áætluð í 43 ám, innan við 1% af veiðistofni árinnar í 46 ám og aðeins í þremur ám hærri en 1% en þó lægri en 4%.

Ragnar Jóhannsson, rannsóknarstjóri áhættumats erfðablöndunar hjá Hafrannsóknarstofnun segir í grein sem birt var á bb.is í sumar að „að mati vísindamanna á þessu sviði þarf ágengni að vera að minnsta kosti 4% á hverju ári áratugum saman til þess að erfðablöndun nái að skerða hæfni stofns árinnar.“

Á sex ára tímabili hafa fram til þessa aðeins fundist 10 eldislaxar í þessum 92 ám, þar af voru 2 frá erlendu eldi.

Tillaga Hafrannsóknarstofnunar er lögð fyrir samráðsnefnd um fiskeldi sem gefur álit sitt á henni. Endanleg tillaga stofnunarinnar er síðan lögð fyrir ráðherra til staðfestingar.

Sigurgeir Bárðarson er fulltrúi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi í samráðsnefndinni. Hann kvaðst vera sammála Hafrannsóknarstofnun um þessa endurskoðun. Sigurgeir sagði það afstaða samtakanna að treysta vísindunum en ekki upphrópunum. Því væri nauðsynlegt að afla sem bestra upplýsinga um slysasleppninguna og síðan að meta hvernig áhættumat erfðablöndunarinnar reynist í því ljósi og eftir atvikum skoða hvort breyta þurfi matinu og þeim aðgerðum sem byggt hefur verið á.

Skoða þurfi ýmsa þætti hjá fleiri eldisfyrirtækjum, t.d. um kynþroska eldislaxa. Það hefði verið athugað hjá Arnarlaxi og reynst 0%. Eftir á að fá upplýsingar af eldi á Austfjörðum. Viðbrögð ráðast af því hvort um er að ræða stakt frávik eða eigi við hjá fleiri fyrirtækjum.

DEILA