Fegurri Flateyri

Þegar aðkomumanneskjan Ingibjörg Rósa flutti tímabundið á Hafnarstrætið á Flateyri, í september 2022, fannst henni tvennt stinga í stúf á eyrinni fögru. Annarsvegar byrgði stórt Takk-skilti útsýnið á smábátahöfnina og hinsvegar var sk***dæluskúr, beint á móti Gunnukaffi,  til mikillar óprýði þótt hann hefði mikilvægt hlutverk. Leið og beið allan veturinn og alltaf blöstu þessi skrípi við en þegar sumarið gekk í garð komu „sumarfuglarnir“ Jean Larson og Alan Deverell heim á Flateyri, en Jean er listakonan á bak við allar fuglamyndirnar í þorpinu. Ingibjörg gaukaði að þeim hvort ekki væri hægt að lappa uppá skúrinn og ekki stóð á þeim hjónum. Eftir að hafa fengið leyfi hjá Ísafjarðarbæ tóku Jean og Alan skúrinn í algjöra yfirhalningu svo nú fellur hann betur inn í umhverfið og er svæðið mun snyrtilegra ásýndar. 

Þá fjarlægði áhaldadeild bæjarins skiltið eins og umbeðið var, sem bætti útsýnið stórlega. Staurarnir standa reyndar enn og hafa m.a. nýst fólki sem talar lengi í símann, til að halla sér upp að. En myndirnar tala sínu máli, ferðamönnum þótti áhugavert að sjá verkið í vinnslu, stöldruðu við og tóku upp spjall við Jean og Alan, en verkið kláraðist engu að síður og þau hjú eru þegar komin með hugmyndir að verkefnum fyrir næsta sumar, til að fegra umhverfið enn frekar. 

DEILA