Farþegi af skemmtiferðaskipi á Ísafirði í sjálfheldu í Eyrarhlíð

Rétt fyrir klukkan 3 í dag var Björgunarfélag Ísafjarðar og Björgunarsveitin Tindar í Hnífsdal boðaðar út vegna unglingspilts, farþega af skemmtiferðaskipi sem var á Ísafirði, sem hafði klifið upp Eyrarhlíð og var kominn í sjálfheldu í Gleiðarhjalla.

Fjallabjörgunarfólk hélt upp hlíðina til hans en hann var kominn í bratta kletta og treysti sér ekki lengra, hvorki upp né niður.

Um 4 leitið voru fyrstu björgunarmenn komnir að drengnum sem var farinn að kólna en var aðallega ósáttur við sjálfan sig. Óskað hafði verið eftir þyrlu frá Landhelgsigæslu sem var væntanleg rétt fyrir klukkan 5.

Drengurinn var færður í föt af björgunarliði, auk þess að vefja hann teppi, meðan beðið var eftir þyrlunni.

Þyrlan var yfir staðnum skömmu fyrir klukkan 5, og sigmaður seig niður til hópsins og upp með drenginn. Þyrlan flutti hann svo á flugvöllinn á Ísafirði, þaðan sem hann var svo færður aftur til skips, en skemmtiferðaskipið átti að leggja úr höfn klukkan 17.

Björgunarliðar eru nú að ganga frá í fjallinu og fikra sig niður eftir að hafa tryggt björgunarmann meðan hann kom sér niður af sillunni þar sem drengurinn var.

Meðfylgjandi eru myndir LHG frá aðgerðum í dag.

DEILA