Embætti forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða laust til umsóknar

Heilbrigðisráðuneytið hefur auglýst laust til umsóknar embætti forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða.

Gylfi Ólafsson hefur þegar látið af störfum og gegnir Hildur Elísabet Pétursdóttir nú stöðu forstjóra.

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða starfar samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, með síðari breytingum. Heilbrigðisstofnunin veitir almenna heilbrigðisþjónustu í heilbrigðisumdæmi Vestfjarða sem nær yfir sveitarfélögin Bolungarvíkurkaupstað, Ísafjarðarbæ, Súðavíkurhrepp, Tálknafjarðarhrepp og Vesturbyggð. Þá annast stofnunin starfsnám í heilbrigðisgreinum og starfar í tengslum við háskóla á sviði fræðslumála heilbrigðisstétta og rannsókna í heilbrigðisvísindum.

Forstjóri ber ábyrgð á að Heilbrigðisstofnun Vestfjarða starfi í samræmi við lög, stjórnvaldsfyrirmæli og erindisbréf sem ráðherra setur honum.

Lögum samkvæmt skal forstjóri hafa háskólamenntun og/eða reynslu af rekstri og stjórnun sem nýtist í starfi.

Hæfni umsækjenda verður metin af nefnd, skv. 2. mgr. 9. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, með síðari breytingum.

Heilbrigðisráðherra skipar í stöðuna til fimm ára frá 1. febrúar 2024.

DEILA