Engin svör hafa borist frá Bjarna Jónssyni, alþm. við ítrekuðum spurningum Bæjarins besta um vinnu hans fyrir veiðiréttarhafa í nokkrum laxveiðiám. Staðfest er að Bjarni hefur síðustu 4 ár aðstoðað veiðiréttarhafa í Ísafjarðará. Var hann inntur eftir því hvort rétt væri að hann ynni sem fiskifræðingur fyrir veiðiréttahafa í laxveiðiám og spurt sérstaklega um Ísafjarðará, Hofsá og Miðfjarðará.

Bjarni Jónsson getur þessara starfa ekki í hagsmunaskráningu sinni á Alþingi og segist þar ekki hafa nein launuð störf eða verkefni önnur en þingmannsstarfið.

Síðustu fjögur ár hefur Bjarni Jónsson setið í samráðsnefnd um fiskeldi, tilnefndur af Guðmundi Inga Guðbrandssyni þáverandi umhverfis- og auðlindaráðuneytisráðherra. Matvælaráðherra skipaði nýja samráðsnefnd í ágúst síðast liðinn og lét Bjarni þá af störfum í nefndinni.

Þegar núverandi áhættumat um erfðablöndun var samþykkt árið 2020 studdi Bjarni það ekki og gagnrýndi harðlega Hafrannsóknarstofnun í ítarlegri bókun og sakaði stofnunina óbeint um að þjóna laxeldisfyrirtækjum. Sagði Bjarni Jónsson í bókuninni að Hafrannsóknarstofnun hefði „stórkostlegra fjárhagslegra hagsmuna að gæta sem hún fylgir eftir, af verkefnum sem af fiskeldinu leiðir og sömuleiðis þjónusturannsóknum í laxveiðiám á Íslandi. Núverandi staða samræmist ekki góðum stjórnsýsluháttum og grefur undan trúverðugleika þess faglega ferlis sem þarf að vera til staðar við vandaða ákvarðanatöku.“

Helsta breyting sem varð þá á áhættumatinu er að heimilt var að ala 12.000 tonn af frjóum laxi í sjókvíum í Ísafjarðardjúpinu en fram að því var allt Djúpið lokað fyrir laxeldi.

DEILA