Árneshreppur: blendin viðbrögð við ályktun um sameiningu

Frá Norðurfjarðarhöfn í Árneshreppi.

Sveitarstjórn Árneshrepps sendi frá sér í byrjun ágúst ályktun um sameiningu. Þar segir að vegna fámennis sveitarfélagsins hafi Árneshreppur ekki haft frumkvæði að viðræðum við önnur sveitarfélög.  Hreppsnefnd Árneshrepps samþykkti einróma að lýsa yfir vilja til viðræðna við önnur sveitarfélög og jafnframt óska eftir að fá að fylgjast með umræðum í nágrannasveitarfélögum.  

Sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkti 12. september að hún staðfesti áhuga sinn á viðræðum við áhugasöm sveitarfélög um vænleika sameiningar og lýsti sig reiðubúna til viðræðna við fyrsta hentugleika.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar tók ályktun Árneshrepps fyrir í byrjun september og bókað var að bæjarráðið taki jákvætt í ályktun hreppsnefndar Árneshrepps um vilja til sameiningar við önnur sveitarfélög. Ísafjarðarbær er opinn fyrir viðræðum um sameiningu sveitarfélaganna, enda liggja sveitrarfélögin saman, þótt í vegleysu sé.

Sveitarstjórn Súðavíkur hefur einnig rætt þetta mál. Þar var bókað að sveitarstjórnin muni fylgjast með framgangi sameiningarviðræðna, en ekki væru forsendur fyrir formlegum sameiningarviðræðum við Árneshrepp að svo stöddu, ekki síst vegna landfræðilegrar legu sveitarfélaganna.

DEILA