Vesturbyggð: framkvæmdaleyfi veitt fyrir bráðaaðgerðum í Stekkagili

Varnargarður á Patreksfirði nokkru utar við Stekkagil. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar hefur samþykkt að veita framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdum í Stekkagili á Patreksfirði. Framkvæmdin er hluti af bráðaaðgerðum Ofanflóðasjóðs og verður í farvegi neðan Stekkagils.

Verkið verður unnið í haust og fram á næsta vor.

Verkið felur í sér endurmótun og rofvörn farvegar neðan Stekkagils á Patreksfirði. Verkið felst í uppmokstri lausra jarðlaga úr farvegi, fyllingu í bakka, útlögn og hleðsla rofvarnar, lagningu ræsa, færslu lagna, frágang gatna og lagna, framkvæmdasvæðis og efnishauga.
Farvegurinn er um 250 m langur og ofan Aðalstrætis verður hann með 3 m víðum botni og mildum fláum. Neðan Aðalstrætis er vídd í botninn 2 m og bakkar nærri lóðréttir. Bakkar eru rofvarðir og botn þar sem ekki er að finna klöpp. Rofvörn felst í lagningu grjótlags ofan á gróft síulag og sterkan síudúk. Farvegurinn víkkar við ræsi undir vegi. Þar sem klöpp er í botni skal fleyga rás sem styður við rofvörn í bökkum.
Frágangur meðfram farvegi verður þannig úr garði gerður að hann falli vel að núverandi landi og tyrft verður eða sáð í röskuð svæði. Færa þarf lagnir og koma þeim haganlega fyrir undir farveginum. Lagnabrú sem þverar farveginn milli Brunna og Aðalstrætis verður lagfærð.
Ný ræsi eru lögð undir Strandgötu, Aðalstræti og Brunna.

Kort af framkvæmdasvæðinu.

DEILA