Veiðitímabilið á grágæs og heiðagæs hefst 20. ágúst

Mynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Veiðitímabilið á grágæs og heiðagæs hefst laugardaginn 20. ágúst og stendur til 15. mars eins og síðustu ár.

Heiðagæsastofninn stendur sem fyrr sterkur þrátt fyrir nokkra fækkun á síðustu árum. Stofnstærðarmat fyrir árið 2021 var um 418.000 fuglar sem var 13.8% fækkun frá fyrra ári. 

Íslenski grágæsastofninn náði hins vegar hámarki árið 2011 og var þá 112.000 fuglar. Síðan þá hefur grágæs fækkað nokkuð og bentu talningar ársins 2021 til þess stofninn væri  65.000 fuglar. 

Á árunum 2010 – 2019 fækkaði grágæs að jafnaði um 6% á ári og í ljósi alþjóðlegra skuldbindinga Íslands og Bretlands, í tengslum við AEWA samninginn um verndun sjó- og vatnafugla, stóð til að leggja á skilyrðislaust veiðibann á tegundina. Á fundi aðildarþjóða samningsins 30. september 2022 var hinsvegar samþykkt tillaga Breta um að breyta skráningu íslensk-breska grágæsastofnsins í viðauka samningsins sem myndi heimila þjóðunum að stunda sjálfbærar veiðar úr stofninum að því tilskyldu að fyrir liggi (alþjóðleg) stjórnunar- og verndaraætlun (action plan) ásamt verkáætlun (adaptive management program). Sú vinna er komin í fullan gang og er gert ráð fyrir að henni muni ljúka á árinu 2025. 

Fram að þeim tíma sem áætlunin mun taka gildi hefur verið ákveðið að setja á sölubann á grágæs sem verður endurskoðað ef stofninn fer að taka við sér á ný.

DEILA