Umboðsmaður Alþingis: andstætt lögum að krefjast vottorðs frá lækni í heimabyggð til greiðslu á ferðakostnaði

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra var þá heilbrigðisráðherra.

Umboðsmaður Alþingis birti á miðvikudaginn álit sitt í máli um skilyrði í reglugerð um ferðakostnað sjúkratryggðra og aðstandenda þeirra innanlands, sem áskilur að læknir í heimabyggð verði að vísa sjúkratryggðum til sérfræðilæknis til að sjúkratryggingar taki þátt í ferðakostnaði. Telur umboðamaður að skilyrðið samrýmist ekki lögum um heilbrigðisþjónustu.

Tildrög málsins eru þau að manni var synjað í Sjúkratryggingum Íslands um um greiðsluþátttöku í ferðakostnaði vegna sjúkdómsmeðferðar. Synjunin var byggð á því að lögheimili viðkomandi væri á einum stað og hann hefði ferðast þaðan til annars staðar til að sækja læknisþjónustu. Það hefði hins vegar verið læknir hans á þriðja staðnum , en ekki í heimabyggð hans, sem hefði vísað honum til sjúkdómsmeðferðar. Synjuninni var skotið til úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti synjun Sjúkratrygginga Íslands.

Maðurinn undi ekki þeirri niðurstöðu og leitaði til umboðsmanns Alþingis.

Skýringar stjórnvalda til umboðsmanns voru þær að umrætt skilyrði byggðist á því sjónarmiði að greiðsluþátttaka í ferðakostnaði kæmi aðeins til greina ef heilbrigðisþjónustan væri ekki í boði í heimabyggð hins sjúkratryggða.

Umboðsmaður gerði ekki athugasemdir við það, en benti á að lögum samkvæmt ætti sjúklingur bæði rétt á að leita til þeirrar heilsugæslustöðvar eða heilbrigðisstofnunar sem hann ætti auðveldast með að ná til hverju sinni og til þess læknis sem honum hentaði best. Umboðsmaður áleit því að með skilyrði um tilvísun „læknis í heimabyggð“ væri með ákveðnum hætti þrengt að rétti sjúklinga til að leita til læknis utan heimabyggðar. 

Í málinu hefðu ekki komið fram haldbærar skýringar á því hvers vegna læknir, sem sjúkratryggður kynni að leita til utan heimabyggðar, gæti ekki aflað upplýsinga um hvort sú þjónusta, sem hann mæti að þörf væri á hverju sinni, væri í boði í heimabyggð. Umboðsmaður taldi að með umræddu skilyrði hefði lögákveðnum rétti sjúklinga til að leita til læknis utan heimabyggðar sinnar í reynd verið raskað umfram það sem nauðsynlegt var. Af þessum sökum varð það niðurstaða umboðsmanns að skilyrðið væri andstætt lögum og þá einnig fyrrgreindur úrskurður úrskurðarnefndarinnar í málinu.

Ákvæðið úrelt að mati ráðuneytisins

Í svörum heilbrigðisráðuneytisins við fyrirspurnum umboðsmanns kom einnig fram að umrædd regla væri komin til ára sinna hvað varðar nauðsyn þess að læknir í heimabyggð þurfi að rita vottorð og að heilbrigðiskerfið hefði tekið miklum breytingum á þessum 24 árum síðan hún var tekin upp. Taldi ráðuneytið að umrædd regla væri úrelt og nauðsynlegt væri að gera breytingar á reglugerðinni og afnema það skilyrði að það þurfi að vera læknir í heimabyggð viðkomandi sem þurfi að vísa sjúkratryggðum til meðferðar annað ef þjónustan er ekki í boði í heimabyggð viðkomandi.

Að þessum svörum fengnum var leitað til úrskurðarnefndar velferðarmála og spurt hvort hún teldi tilefni til að endurskoða fyrri afstöðu sína. Svaraði nefndin því til að svo væri ekki þar sem umræddri reglugerð hefði ekki verið breytt.

Athugun umboðsmanns sneri einkum að 2. gr. reglugerðar nr. 1140/2019, um ferðakostnað sjúkratryggðra og aðstandenda þeirra innanlands, en í greininni er það gert að skilyrði fyrir þátttöku sjúkratrygginga í ferðakostnaði samkvæmt reglugerðinni að „læknir í heimabyggð“ hafi þurft að vísa sjúkratryggðum frá sér til óhjákvæmilegrar sjúkdómsmeðferðar. Reglugerðin var sett árið 2019 og er undirrituð af Svandísi Svavarsdóttur, þáverandi heilbrigðisráðherra.

Niðurstaða umboðsmanns var að hann mæltist til þess að málið yrði tekið til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni þess efnis frá viðkomandi, og að leyst yrði úr því í samræmi við sjónarmið sem lýst væri í álitinu. Hann beindi því jafnframt til heilbrigðisráðuneytisins að við fyrirhugaða endurskoðun á umræddri reglugerð yrði höfð hliðsjón af þeim sjónarmiðum.

DEILA